Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Skiljanleg sjónarmið

Þeir sem athugasemdir hafa um þessa frétt eru fremur á sveif með álfurstum en hagsmunaaðilum Óttarstaða.

Skoðum þetta mál aðeins betur: Er rétt að mengandi starfsemi fái að halda henni áfram án þess að tekið sé tillit til grenndarsjónarmiða? Með grenndarsjónarmiðum er átt við þann lögvarða rétt þeirra sem næst eiga hagsmuni. Ljóst er að ekki á fólk að líða bótalaust ef einhver truflandi eða mengandi starfsemi er sett niður í næsta nágrenni. Enginn væri sáttur við að fá einhverja lýsisbræðslu sem næsta nágranna eða starfsemi sem hefði aðra mengun í för með sér, kannski hraðbraut eða jafnvel heilan flugvöll. Eitthvað myndi margur segja við því.

En vandamálið er auðvitað um starfsemi sem fyrir er. Þegar álverið var sett niður í Straumsvík fyrir um 40 árum voru mannréttindi ekki upp á pallborðið hvorki í gamla Sovét né Íslandi. Lengi hafa hagsmunaaðilar á gömlu lögbýlunum í Straumi og á Óttarstöðum haft uppi athugasemdir við mengandi starfsemi í Straumsvík. Aldrei hefur verið hlustað á þessa aðila jafnvel þó þeir hafi alltaf átt lögvarða hagsmuni að gæta og enginn dregið það í efa.

Við minnumst þess þegar Laxárstíflan við Mývatn var rofin fyrir nær 40 árum. Hópur manna nálægt 100 manns var kærður til refsingar fyrir eignaspjöll en allir voru sýknaðir vegna þess að aldrei var hlustað á réttmæta hagsmunagæslu þeirra. Er ekki svipað uppi á teningnum nú að þessu sinni nema að hagsmunaaðilar vilja útkljá þetta deilumál fyrir dómsmálum en ekki fara út í umdeilanlegar aðgerðir sem hugsanlega leiddu til tjóns eða röskunar á starfsemi álversins?

Skattur er lagður á mengandi starfsemi víðast um heim, - nema auðvitað á Íslandi! Skatturinn nemur nú um 25 evrur á hvert tonn af CO2 á ári. Álverunum er gefið eftir þetta gjald og ef við gerum því skóna að um 1 milljón tonn af áli séu framleidd hér næmi skatturinn um 2 x 25 evrum, þ.e. 50 milljónir evra en fyrir þá upphæð myndi vera unnt að ganga langt í að reka alla starfsemi á vegum Háskóla Íslands ef gjaldið væri á lagt. Það myndi muna um minna hjá okkur um þessar mundir!

Því miður er málstaður þeirra sem vilja menga ókeypis á kosnað annarra að mati Mosa lítils eða jafnvel einskis virði.

Mosi


mbl.is Í mál við Alcan, ríkið og Hafnarfjarðarbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vakir fyrir bresku ríkisstjórninni?

Ljóst er að eftirlit með fjármálastarfsemi er víða ábótavant. Í Bretlandi hefur virkt fjármálaeftirlit með íslensku bönkum verið ekki eins og það hefði þurft að vera og spurning hvort bresk stjórnvöld hafi með því tómlæti tekið þannig á sig sjálf ábyrgð sem þau vilja nú láta Íslendinga gjalda fyrir. Óvíða er borð fyrir báru. Það verður að segjast eins og er að íslensk stjórnvöld hafa sýnt efnahagsmálum einstaka léttúð og það er greinilegt að breska ríkisstjórnin hyggst útnýta sér út í það ítrasta. Það verður því að teljast mjög varhugavert og jafnvel vítavert ef íslenska ríkisstjórnin ábyrgist erlendar innistæður umfram það sem gildandi eru og teljast eðlilegar og sanngjarnar í þeim viðskiptalöndum okkar. Við getum ekki tekið á okkur meiri skyldur en sanngjarnt og réttlætanlegt er.

En hvað vakir fyrir bresku ríkisstjórninni?

Ekki er ólíklegt að breska ríkisstjórnin hyggist á landvinninga í orðsins fyllstu merkingu. Ástæður þess eru auðvitað mjög margar:

1. Endurvinnslustöðin í Sellafield í Skotlandi hefur verið Skotum og öllum þjóðum við Norður Atlantshafið mikill þyrnir í augum. Það væri mjög gott tækifæri að koma þessari umdeildu starfsemi eitthvað annað. Sennilega myndu jafnvel allmargir Íslendingar fagna að fá slíkan óhroða til sín gegn nokkrum silfurpeningum miðað við hve margir vilja efla stóriðja hér.

2. Breski flotinn þarfnast aukins svigrúms. Ísland hefur lengi verið kjörstaður fyrir hernaðrhyggju og það hefur því miður lítið breyst. Nú opnast nýir möguleikar siglingaleiða með hlýnandi loftslagi.

3. Betri aðgangur að orku og hráefnum. Mörgum Bretum hefur ætíð sviðið sárt að breska heimsveldið þurfti að tapa hverju þorskastríðinu á fætur öðru upp úr miðri síðustu öld. Íslendingar voru einungis vopnaðir fornum fallbyssum úr Búastríðinu en þær dugðu vel! Aðgangur að orku á Íslandi verður að teljast tiltölulega greiður og einnig má reikna með að á næstu árum verði ódýrara að flytja orku milli landa með betri tækninýjungum. Að ráða yfir Íslandi treystir einnig möguleika Breta að snúa sér næst að Dönum og leggja Grænland undir sig. Þar eru einar mikilvægustu úrannámur í heimi, þar má auk þess finna önnur eftirsótt og dýr hráefni, t.d. gull. Þá eru Færeyjar komnar á áhrifasvæði Breta og reikna má með að þeir sölsi þær einning undir sig m.a. til að tryggja sér hagsmuni vegna olíu og fiskveiða.

4. Ráð yfir Íslandi treystir markaðssókn breskra aðila og á Íslandi eru gríðarlegir möguleikar til að auka landbúnað og ferðaþjónustu auk orkuvinnslu. Fleiri hugsanleg markmið kunna að liggja að baki forsætisráðherrans breska. Hér verður látið staðar numið. Við skulum minnast þess að Bretland er gamalt nýlenduveldi og þó breska ljónið virðist hafa verið æríð syfjulegt á undanförnum árum, þá er það líklegt að rísa upp á afturfæturnar og glefsa frá sér og tæta í sig sem það hefur hug á. Með þessum aðgerðum Gordon Brown að beita hermdarverkalögum á Íslendinga, hefur hann valdið Íslendingum meira tjóni en allar þær náttúruhamfarir sem gengið yfir Ísland undanfarnar aldir.

Við eigum að gera okkur fyllilega grein fyrir þessu og verðum að haga okkur með hliðsjón af því. Gordon Brown er stórvarhugaverður maður rétt eins og einræðisherrar sem öðluðust vafasama frægð fyrr á tímum. Hann lætur sig dreyma stóra drauma að Bretar eflist að nýju sem stórveldi að nýju og nú  á Norður Atlantshafi hvað allir athugi!

Mosi

Svona fara peningarnir okkar

Skelfilegt er að horfa upp á þetta hverning eignir okkar í útlöndum nánast gufa upp. Þegar aðeins SEK 60 milljónir fást fyrir fjárfestingu sem var SEK 425 milljónir fyrir nokkrum sér hver heilvita maður hvert stefnir. Þetta eru um 13-14% af upphaflegu fjárfestingunni og eru vextir á tímanum ekki reiknaðir með. Flestum íslenskum bændum hefði þetta þótt mjög lélegar heimtur af fjalli.

Auðvelt er fyrir sænska skattgreiðendur og sænsk fyrirtæki að efna til einhvers hjálparstarfs til handa Íslendingum vegna efnahagslegra hamfara Gordons Brown hér á landi með því að senda hluta af þessum skyndigróða.

Mosi

 


mbl.is Glitnir í Svíþjóð seldur á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Brown brýtur gegn þjóðarrétti og sjálfstæði smáþjóðar

Lögleysa forsætisráðherra Breta virðist ganga út á það að nú ætlar Gordon Brown að svelta Íslendinga til hlýðni. Kúgun hans á hendur okkur á sér fá fordæmi og verður sennilega að líta á tilburði einræðisherra fyrri tíma að finna einhverjar hliðstæður.

Brambolt Gordons Brown er gjörsamlega úr takti við alla skynsemi og brýtur gegn þjóðarrétti og sjálfstæði smáþjóðar. Kæra þarf forsætisráðherra Breta fyrir þessa lögleysu!

Nú eigum við Íslendingar að leggjast á að kynna málstað okkar en þó svo að nokkrir íslenskir mislukkaðir athafnamenn hafi látið vaða á súðum í fjárglæfrum, þá skulum við minnast þess að eftirlit Breta sjálfra á fjármálaumsvifum erlendra banka á Bretlandi hefur greinilega einnig mistekist og þeir glutrað niður samningsstöðu sinni.

Fiskútflytjendur og aðrir hagsmunaaðilar þurfa greinilega að beina greiðslum sínum framhjá þessu voðalega landi Bretlandi meðan þetta umdeilda og með öllu siðlausa ástand varir.

Baráttukveðjur

Mosi


mbl.is Greiðslur stöðvaðar á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkahnútur Gordons Brown

Eldri drengurinn okkar er að hefja framhaldsnám í Þýskalandi. Eftir BS nám við Verkfræðideild Háskóla Íslands starfaði hann t ár á verkfræðistofu til að afla tekna fyrir nám sitt. Hann útvegaði sér herbergi skammt frá háskólanum í Karlsruhe. Þegar sá sem hafði íbúðina til ráðstöfunar frétti að Íslendingur ætti hlut að máli var honum úthýst. Viðkomandi var nefnilega í Bretlandi uppfullur af nýja sannleikanum Gordons Brown. Það er virkilega ámæliosvert að missa herbergi vegna þjóðernis síns. Hann hefur útvegað sér annað herbergi sem kostar hann tæplega 100 evrum meira á mánuði.

Minn betri partur hefur einig ritað um þetta: http://ursula.blog.is/blog/ursula/entry/674924/

Dýr verður Gordon Brown okkur Íslendingum og óskandi ná góðir lögfræðingar einhverjum ásættanlegum árangri gegn siðlausum lögleysum þessa voðalega forsætisráðherra Breta sem bitna harðast á saklausu fólki.

Mosi


mbl.is Hryðjuverkalögin skemma fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru bresku innistæður Landsbankans?

Veðmál eru algeng og vinsæl í Bretlandi. Þar eru sennilega einna flestir braskarar samankomnir ef marka má fréttir þaðan. Þessi groddalega yfirlýsing Gordon Brown gagnvart Íslendingum um að íslenski ríkiskassinn sé gjaldþrota á ábyggilega eftir að draga lengi dilk á eftir sér. Aumingja maðurinn hefur látið skapið hlaupa með sig í gönur og því er allt fjármálakerfi milli Grænlands og Skotlands í miklu uppnámi. Braskarar virðast hafa hópast hingað með troðfullar stresstöskur af erlendum gjaldeyri í trausti þess að komast yfir íslenska banka og fyrirtæki. Því miður hafa margir glapist að selja hlutabréf á tombóluverði og því hefur vísitala þeirra hrapað nmiður úr öllu valdi. Sennilega er hrapið orðiðmeira en í Wall Street Nýju Jórvík í okt. 1929. Nú hefur t.d. Eimskip fallið um nær 99% og er það mjög dapurlegt enda var það lengi vel eitt af styrkustu hlutafélögum landsins.

Hvar eru bresku innistæður Landsbankans?

Spurning er hvar eru allar þessar himinháu bankainnistæður í útibúum Landsbankans í Bretlandi niðurkomnar? Skyldi vera möguleiki að þær séu að einhverju leyti komnar í hendurnar á brasklýðnum sem nú hópast tugum ef ekki hundruðum saman til Íslands?

Fjármálaeftirlitið var því miður sofandi á verðinum. Spurning er hvort á þeim bæ séu ekki allir löngu sofnaðir af ofþreytu og geti því vart fylgst gjörla með hvað nú er á seyði?

Mosi


mbl.is Ríkisendurskoðun Breta átti fé á íslenskum reikningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla merki Eimskipafélagsins Þórshamarinn upp!

Þegar Eimskipafélagið var stofnað var ákveðið að leita langt aftur í aldir að finn táknrænt merki fyrir félagið. Fyrir valinu var ævafornt tákn, Swastika, sem rekja má aftur í aldir til forn Indverja. Norræna heitið var Þórshamar og var tákn germanskrar menningararfleifðar og táknaði bjarta og góða framtíð. Þetta tákn var til í ýmsum myndum en sennilega átti þjóðernisflokkurinn þýski meginþáttinn í að gera tákn þetta óalandi og óferjandi meðal þjóða heims. Þýsku nasistunum yfirsást að útfærsla þeirra hafði enga táknræna merkingu nema þeirra eigin enda breyttu þeir tákninu á nokkuð róttækan hátt. Hið forna tákn er kross láréttur og lóðréttur með stuttum örmum. Nasistarnir framlengdu örmunum og hölluðu tákninu um 45 gráður. Það merki hafði enga merkingu efir hinni gömlu indversku speki og því varð þeim ekki kápan úr því klæðinu.

Er ekki kominn tími kominn að leiðrétta miskilninginn?

Meðan Eimskipafélagið flaggaði gamla Þórshamrinum gekk því mjög vel. Eftir að nýja stílfærða E merkið var tekið upp hefur gengið á ýmsu hjá félaginu. Fyrir ári var gengið meira en fertugfalt nafnvirði en nú er það einungis lítið brot úr nafnverði.

Það er því spurning hvort ekki ætti að taka upp gamla góða merkið og flagga því jafnhliða íslenska fánanum til að sýna samstöðu okkar og að við íslendingar erum ekki tilbúnir að gefast upp þrátt fyrir að braskaralýður vilji komast ódýrt yfir eignir bankana okkar eftir að breskur misvitur forsætisráðherra hefur valdið okkur meira tjóni á ögurstund en við öfum setið uppi með á einni öld! Við höfum engu að tapa en allt að vinna og við eigum ekki að láta hugfallast þó í augnablikinu blási kröftuglega á móti frá Downingstræti 10 í Lúndúnum.

Mosi

 


mbl.is Eimskip flaggar íslenska fánanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Napóléon og Davíð Oddsson

Þegar Napóléon missti völd í Frakklandi eftir stormasama stjórnartíð var hann sendur til eyjarinnar Elbu. Þangað fóru nánustu vinir hans. Þegar sigurvegurunum kom ekki almennilega saman, lét Napóléon húskarla sína róa með sig í land. Brátt safnaðist að honum leifarnar af franska stjórnarhernum og hyllti fornan foringja sinn. Svo fór að Napóléon varð undan að síga og var handtekinn af Bretum. Ekki tóku Bretar neina áhættu að eiga von á að Napóleon hæfist enn á ný til valda. Tóku þeir til ráðs eins og kunnugt er að senda herskip með hann til einnar þeirrar einangruðustu eyju sem fyrir finnst á jörðinni, St. Helena á suður Atlantshafi.

Nú höfum við Íslendingar setið uppi með nokkurs konar Napóléon. Hann hefur ráðið nánast öllu sem lífsanda dregur á Íslandi og þykir mörgum orðið valdagleði hans enn vera nokkur.

Spurning er hvort ekki verði að gera hann sem næst valdalausan með því að koma honum fyrir á einhverri eyju. Spurning er hvort einhver eyja innan íslensku landhelginnar myndi ekki duga? Á Breiðafirði eru hátt í 3.000 eyjar og sker. Þar mætti koma kappanum fyrir þar sem hann gæti dundað sér við ásamt tryggustu vinum sínum að kljúfa rekavið á vetrum en sinna hrognkelsaveiðum og æðarvarpi á vorin? Varla gæti hann orðið samfélaginu meira að tjóni þar en í Seðlabankanum. Og sjálfsagt gætu nánustu og dyggustu vinir hans fylgt honum í útlegðina, Hannes Hólmsteinn og Kjartan Gunnarsson. Hvort eyjan heitir Hrappsey, Stagley eða Svefneyjar ætti einu að gilda. Þá má einnig huga að Rauðasandi þar sem Kjartan hefur lagt undir veraldlegt veldi sitt og væri það ágætur kostur ef um semst. En ekki væri vænlegt að setja hann niður í Flatey enda myndi byggð þar sennilega að mestu leyti leggjast af við nálægð slíks stórveldis sem Davíð er. Það má ekki verða.

Mosi


Oft hafa Bretar farið í umdeildar herferðir

Öll mannkynssagan greinir frá umdeildum herferðum sem margar hverjar hafa endað með skelfingu. Bresk heimsvaldastefna er þar engin undantekning og er víða greint frá herferðum sem Bretar hafa tekið þá í og átt frumkvæði að sumum þeirra. Sumar þessara herferða hafa endað með hræðilegum afleiðingum. Þekkt er þegar þeir hugðust kúga gömlu nýlendurnar sínar 13 sem síðar varð stofninn að Bandaríkjum Norður Ameríku. Þá gripu Ameríkumenn til þess að lýsa yfir sjálfstæði sínu. Þjóðfáni þeirra um tíma var mynd af snák og á fánanum voru skýr skilaboð til Breta: Don´t tread on me!

Öll 19. öldin ber Bretum ekki sérstaklega vel söguna þó svo þeir hafi að jafnaði haft betur. Opíumstríðið svonefnda gegn Kínverjum 1840 var þeim t.d. ekki sérstaklega til framdráttar. Það var mikil hneysa að þjóð sem annars telur sig vera siðmenntaða hafi kappkostað að gera aðra þjóð háða eiturlyfjum. Rétt upp úr miðri öldinni fengu þeir Frakka til liðs við sig og hófu nú árásarstríð á hendur Rússum. Það stríð var kennt við Krím og átti að koma í veg fyrir að Rússar hefðu almennilegan aðgang að sjó! Ekki var aðeins barist á Svartahafi við Krím heldur var sameiginleg flotadeild einnig send suður fyrir Afríku og austur til Kamtsjatka. Þar hugðust Bretar og Frakkar ná Petropavlosk, höfuðstað Kamtsjatka með áhlaupi. Rússum vegnaði betur í þessu stríði og varð hlutur Breta í þessari grafalvarlegu deilu allt að því broslegur.

Kunnugt er hvernig Bretar komu fram við Indverja þegar þeir voru kúgaðir með harðri hendi. Uppreisnarmenn voru bundnir framan við fallstykkin og síðan var hleypt af! Sennilega einhverjar ógeðslegustu aftökur sem unnt er að láta sér detta í hug. Einnig brugðust þeir einkennilega við Búum í Suður Afríku, hollenskum innflytjendum undir lok 19. aldar. Stefán G. Stefánsson skagfirskt skáld orkti mikið og gott kvæði vestur í Klettafjöllum þar sem hann lýsti samúð með Búum. Það olli mikilli tortryggni gagnvart skáldinu sem var fyrst og fremst skáld sem þráði frið og vildi leggja öðrum liðsinni. Og það var frá dögum þessarar styrjaldar sem fallstykkin voru flutt til Íslands og komið fyrir á örsmáu varðskipunum okkar. Þessar fallbyssur dugðu þó okkur alveg prýðilega þangað til hvergi í veröldinni fékkst skotfæri í þessar fornu byssur. Vonandi þurfa Íslendingar aldrei að þurfa að beita nokkru vopni gegn annarri þjóð enda er betra að hafa slík varhugaverð tól og tæki ekki fyrir framan óvita.

Við Íslendingar höfum yfirleitt átt mjög góð samskipti við breska valdsmenn. Þeir börðu þó niður eina innlenda kónginn sem hafði gert friðsamlega byltingu gegn dönskum yfirráðum. Fyrir Bretum vakti, að verslunarhagsmunir á Eystrasalti voru þeim verðmætari en að halda Íslandi og því vildu þeir viðhalda dönsku valdi yfir Íslandi. Við nutum góðra verslunartenglsa við Breta eftir að verslun var gefin frjáls 1854. Þá voru tekin upp vöruskipti þar sem við fluttum út fisk og landbúnaðarvörur einkum lifandi hesta og sauðfé. Hestarnir voru látnir erfiða í breskum kolanámum eftir að þeir höfðu verið augnstungnir. Sjaldan áttu þeir von á að komast lifandi úr þessum skelfilegu dimmu og skítugu námum enda voru þeir útjaskaðir af erfiði uns þeir duttu dauðir niður. Við íslendingar fengum einkum ýmsar þungavörur frá Bretum, iðnaðarvörur einkum járnvörur, kol og salt. T.d. fengum við bárujárn til húsbygginga upp úr 1860. Það varð eitt mikilvægasta byggingarefnið ásamt timbri og síðar sementi.

Nú er sú staða að samband Breta við Ísland hefur kólnað allhrikalega vegna alltof harkalegra aðgerða breska forsætisráðherrans fyrir nokkru. Íslendingar eiga inni afsökunarbeiðni hjá honum og bætur fyrir allt það mikla tjón sem hann hefur valdið. Gordon Brown er sennilega einn sá fljótfærnasti forsætisráðherra sögunnar sem lýsir yfir gjaldþroti heillrar þjóðar án þess að hafa kynnt sér málin almennilega.

Hvers eiga þeir að gjalda sem ekkert eiga með bankana að gera? Af hverju þurfa íslenskir námsmenn erlendis að gjalda fyrir að vera Íslendingar? Eldri sonur minn sem hafði fengið herbergi skammt frá háskólanum í Karlsruhe í Suður Þýskalandi var allt í einu úthýst af því að einhver sem var aðalleigjandi íbúðarinnar hafði brugðið sér til Englands í vikunni þegar þessi óskögp gengu yfir. Sonur minn varð að gjalda fyrir þjóðerni sitt: „við getum ekki leigt Íslending og Ísland er gjaldþrota!“ Miklar umræður urðu og þær harðar. Strákur varð að fara öðru sinni af stað og finna sér annað herbergi í stað þess sem hann missti vegna þessara atvika. Hann fékk loksins eitt laust herbergi eftir að hafa farið bónveg en það kostar nær 100 evrum á mánuði meira en það sem hann hafði áður fengið. Svona getur þessi herferð Mister Gordons Brown á hendur Íslendingum reynst okkur Íslendingum dýrkeypt víða um heim.

Þá er mjög einkennilegt að friðsamir fiskútflytjendur fái ekki greiðslur sínar til skila. Allt er þetta gert með tilvísun í einhver bresk hermdarverkalög eins og sjálfsagt sé að beita þeim hvursdags. Ef til vill þessi lög séu vel samin og því góðra gjalda verð. En góðir embættismenn eru betri en góð lög. Á Bretlandi eru margir góðir embættismenn en auðvitað verða limirnir að dansa eftir höfðinu. Óhætt má segja að verri forsætisráðherra en Gordon Brown er vart unnt að hugsa sér með hliðsjón af þessu alvarlega axarskafti. Sjálfsagt er að vorkenna Bretum fyrir að sitja uppi með annan eins skussa og hann reynist vera.

Herferð Gordons Brown gegn Íslendingum er eins og hver annar vanhugsaður hrekkur. Hefði hann beint reiði sinni fyrst og fremst gegn íslenskum fjárglæframönnum þá hefði hann verið fyllilega í fullum rétti. En að láta heila þjóð gjalda fyrir vanhugsaðar fjárfestingar nokkurra manna, það er ekki réttlætanlegt.

Vonandi verður Gordon Brown látinn gjalda rækilega fyrir alvarleg afglöp sín.

Mosi


mbl.is Ummæli FT borin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Íslands 2008 og 1808

Þó Gordon Brown sé með óvinsælli mönnum á Íslandi um þessar mundir þá eru viðbrögð hans að mörgu leyti skiljanleg. Okkar forystumenn í fjármálum geystust af stað án þess að hafa vaðið fyrir neðan sig. Varkárni er mikilvæg hvort sem er verið að aka bíl eða stjórna bankastarfsemi. Að reka banka erlendis kostar auk þess aukinnar aðgæslu og þar sem þess var ekki gætt þá fór sem fór.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur metur tjón hvers Íslendings á 10 milljónir. Fyrir vísitölufjölskylduna er um að ræða þokkalega íbúð. Þetta er gríðarlegt tjón.

Nú þarf að fá Breta til að létta á þessum hreðjatökum sem þeir hafa á fjármálum Íslendinga. Hvar eru allar þessar himinháu innistæður? Þær hljóta að liggja einhvers staðar.

Mikilsverðast er að fá greiðslur heim fyrir seldan fisk og aðrar vörur og þjónustu. Þessar greiðslur eru ekki í eigu hinna föllnu banka heldur einungis í vörslum þeirra. Við þurfum að hefja þegar eðlileg viðskipti við aðrar þjóðir og til þess þurfum við að endurheimta fjárforræði.

Þess má geta að 1808 var ríkiskassinn íslenski rændur af breskum víkingum. Átti sir Josep Banks meginþáttinn í að leysa þessi mál. Nú er spurningin hver skyldi eiga meiginþáttinn að þessu sinni meðal breskra ráðamanna að leysa þann hnút sem nú hefur verið bundinn?

Mosi


mbl.is Staða Brown styrkist mjög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband