Tími kominn til að staldra við

Eftir að Fljótsdalsvirkjun/Kárahnjúkavirkjun hefur verið tekin í notkun er fyllsta ástæða til að doka með frekari virkjanaáform að sinni. Þessi virkjanaárátta er að verða að nokkurs konar þráhyggju þeirra miskunnarlausu afla í þjóðfélaginu gagnvart náttúrur landins sem líta svo á að bráðnauðsynlegt sé að halda áfram endalaust á þessari varhugaverðu braut.

Þegar Vestfirðingar og síðar Austfirðingar fórnuðu jafnvel góðum æðarvörpum fyrir hvalveiðistöðvar, undir lok 19. aldar þá voru þeir haldnir sömu skoðunum og þeir sem nú vilja fórna helst af öllu hverjum einasta fossi í landinu og hverri einustu náttúruparadís ef takast mætti að framleiða nokkur hundruð megavött í þágu stóriðjunnar. Nú þegar er um 75% þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi seld á fremur lágu verði til þessarar sömu stóriðju. Fyrir einni öld eða svo, voru það rányrkusjónarmiðin gagnvart auðlindinni sem fólgin var í hvölunum.  Það þótti jafnvel sjálfsagt að líta á hvalastofnana eins og þeir væru óþrjótandi auðlind sem taka mætti endalaust af. Svo kom að því að sumar þessara hvalategunda eins og sléttbakur og steypireyður voru svo þaulveiddar að jaðraði við að þær kæmust í útrýmingarhættu. Enn eru þessar tegundir fremur sjaldgæfar vegna ofveiði enda voru þeir mjög auðveiddar.

Nú vill Landsvirkjun færa sig enn frekar upp á skaftið. Augljóst er að ekki dugar Kárahnjúkavirkjun. Ekki dugar Urriðafossvirkjun og ekki duga Landsvirkjun aðrar tvær virkjanir ofar í Þjórsá. Og ekki dugar virkjun sem kennd er við Búðarháls og endanlega eyðileggur Dynk, einn fegursta og sérstæðasta foss Íslands, heldur eru áform um þessa Bjallavirkjun sem þó gefur af sér einungis 46 megavött. Það eru smámunir miðað við allt sem á undan hefur gengið. Einn dans enn kvað presturinn forðum í Hruna!

Hráálsflutningar til landsins eru mjög óhagkvæmir enda mjög sérhæfðir. Ekki er unnt að flytja neinn annan varning til baka sömu leið og því verða þessir flutningar tiltölulega mjög dýrir. Skipin fara gjörsamlega tóm til baka. Best væri því að framleiða ál sem næst upprunanum. Mun auðveldara og ódýrara væri að flytja álbarra og áþekka framleiðslu enda samræmist slíkur flutningur betur flutning á öðrum vörum. Nú gæti svo komið að þessir flutningar verði jafnvel enn óhagkvæmari vegna þess að olíuverð fer væntanlega aftur snarhækkandi þó svo markaðsverð hafi gengið nokkuð til baka á undanförnum vikum.

Kannski kemur brátt að því að framleiðendur áls á Íslandi segi við íslensk stjórnvöld og þar með Landsvirkjun: Þessir flutningar á hrááli eru okkur það óhagkvæmir. Því væntum við þess að annað hvort fáum við fram verulega lækkun á rafmagnsverði eða við lokum einfaldlega álverssjoppunum okkar á Íslandi! Verður þá ekki svipað uppi á teningunum þegar hvalveiðistóriðjan pakkaði saman á sínum tíma fyrst á Vestfjörðum og síðar Austfjörðum? Það var mikil raunasaga og sýnir okkur að oft snýst velgengni skjótt upp í andstæðu sína.

Það hefur aldrei verið góð latína að hafa öll eggin í sömu körfunni, jafnvel þó hún kunni að hafa verið vandlega fléttuð úr áli!

Stöldrum því við góðir Íslendingar og leyfum tímanum aðeins að sýna fram á hvað í vændum er!

Mosi


mbl.is Ný virkjun í undirbúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segist vera áhugamaður um orkumál, náttúrufræði og umhverfismál, og lætur þess jafnframt getið að þú sért formaður í umhverfis og náttúrufræðifélagi.  Ættir þess vegna að vera vel kunnugur þessum málum.  Útskýrðu nú fyrir mér, og öðrum sem gætu átt það til að lesa þetta, hvernig Búðarhálsvirkjun fer að því að eyðileggja Dynk, einn fegursta og sérstæðasta foss Íslands.

Þess má svo geta að fyrir svona fjórum árum var Töfrafoss sérstæðastur og fegurstur, þar áður var það fossaröðin í Jökulsá á Fljótsdal, og í dag hélt ég að það væri Urriðafoss.

 En endilega skýrðu þetta með Dynk og Búðarhálsvirkjun.

Dengsi (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 22:50

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður hefur Dynkur ekki verið aðgengilegur. Hans minnast margir ferðamenn sem eins sérstakasta og fegursta fossa landsins. Það er eins og virkjanmenn vilji eindregið ráðast á þessa fossa sem og aðrar náttúruperlur til að unnt sé að réttlæta eyðileggingu annarra náttúruminja.

Kunningir segja að nú sé vatnið sem rennur um Dynk einungis brot af því sem þar áður rann. Vatni er veitt úr Þjórsá í Kvíslárveitu og það nýtt til að knýja virkjanir við Tungná.

Þessi fyrirhugaða nýja hugdetta þeirra Landsvirkjunarmanna um Bjallavirkjun með tilheyrandi vatnaflutningum og uppistöðulóni við Fjallabaksfriðlandið er ekki kraftmeiri en svo að hún nær ekki einu sinni afköstum einnar túrbínu Sigölduvirkjunar! Er þess virði að ganga lengra í að fórna hálendinu í þágu stóriðjunnar! Hver stjórnar þessu? Eru þar einhverjir huldumenn sem tengjast stóriðjunni sem aftur virðast hafa öllvöld á ráðamönnum þjóðrinnar? Er eitthvert vit í þessu?

Sá spyr sem leyfir sér að efast.

Mosi

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 4.9.2008 kl. 23:33

3 Smámynd: Þórólfur Kristjánsson

Ég mæli með að þú náir þér nú í landakort Mosi minn.  Svona til að rifja hlutina upp þá er Búðarhálsvirkjun ætlað að virkja fallhæð á milli Hrauneyjafossvirkjunar og svo Sultartangavirkjunar.

Búðarháls mun því fá afl sitt frá Köldukvísl og Tungnaá sem renna báðar nú þegar í Sultartangalón.

Umræddur foss er nefnist Dynkur er hinsvegar í Þjórsá sem er norðan til við Búðarhálsinn og kemur þeirri virkjun bara ekkert við.  Það er því af og frá að Dynkur muni bera skaða af þessari virkjun.

Það eru ummæli sem þessi sem virkilega meiða málstað náttúrunnar vegna þess að maður hættir að trúa því sem svokallaðir náttúruverndarsinnar skrifa og segja.  Þeir virðast ekki einu sinni þekkja eigið land!

Þórólfur Kristjánsson, 5.9.2008 kl. 00:17

4 identicon

Mosi gat ekki skýrt málflutning sinn um Dynk, og féll því á prófinu.  Þórólfur stóðst það hins vegar með ágætum.  Vonum að Mosi verði duglegur við að leiðrétta þetta við þá sem hann hefur talið trú um að Dynkur muni eyðileggjast af völdum Búðarhálsvirkjunar.  Mosi er jú með BA í upplýsingafræði.

Mosi segir nú að Dynkur sé því miður ekki aðgengilegur.  Ekki veit ég hvort honum þyki miður að ekki liggi vegur fram á fossbrúnina.

Leggjum nú annað próf fyrir Mosa, og vonum að hann svari spurningunni í stað þess að fara undan í flæmingi.  Mosi sagði orðrétt "Þessi fyrirhugaða nýja hugdetta þeirra Landsvirkjunarmanna um Bjallavirkun með tilheyrandi vatnaflutningum og uppistöðulóni....".  Nú er spurningin til Mosa þessi:  Hvaða vatnaflutninga er um að ræða?

Það verður upplýsandi að lesa svar Mosa.

Dengsi (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 18:22

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Góð og áræðanleg vegakort af þessum landshluta eru því miður ekki til. Þarna hefur Landsvirkjun breytt mjög miklu, margir vegaslóðar og ekki allir áræðanlegir. Einhvers staðar er þó lítið og látlaust skilti sem vísar á Dynk, hafi það ekki verið tekið niður.

Að Dynk hefur ekki verið fólksbílafært fremur en að Háafossi og Granna í Fossá efst í Þjórsárdal, útnorður af Sultartangavirkjun. Það er virkilega miður enda eru allir þessir Suðurlandi til mikillar prýði og mættu ferðamálayfirvöld leggja rækt við að greiða götu ferðamanna sem best að þessum náttúruperlum. En kannski að Landsvirkjun hugnist slíkt ekki.

Þórður: Eins og allir mega vita, þá hefur Landsvirkjun veitt töluverðu vatni um Kvíslárveitu. Þannig rennur vatnið ekki um upprunalegan farveg og um Dynk. Talið er að Dynkur sé núna aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.

Til huldumannsins sem nefnir sig „Dengsa“: Þú mátt lesa þig betur til um þessi mál og einhverjir útúrsnúningar eru ekki til að greiða úr þvælunni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 7.9.2008 kl. 18:15

6 identicon

Sæll Mosi

Ég kannast ekki við að hafa verið með neina útúrsnúninga við þig.  Öðru nær.  Ég hef beðið þig um að skýra mál þitt.  Þú sagðir Búðarhálsvirkjun myndu eyðileggja Dynk.  Gast hins vegar, eðli máls samkvæmt, ekki fært rök fyrir þeirri fullyrðingu þinni enda fullyrðingin með öllu röng.  Það er hins vegar rétt hjá þér að vatni hefur verið veitt um Kvíslaveitu, en það er annað mál.

Síðan talar þú um "vatnaflutninga" í tengslum við Bjallavirkjun.  Ég bað þig um að skýra hvaða vatnaflutninga væri um að ræða, en þú sennilega getur ekki skýrt það.  Trúlega er það vegna þess að fullyrðingin um vatnaflutninga er röng.

Ástæða þess að ér fór að skrifa hér er einfaldlega sú að þú, vel menntaður maðurinn með áhuga á orku- og umhverfismálum, fórst með rangar fullyrðingar í máli þínu.  Það er nefnilega þannig, eins og Þórólfur benti á, að málflutningur eins og þessi er málstaðnum ekki til framdráttar heldur þvert má móti.  Er ekki betra að fara rétt með þegar menn tala fyrir sínum málstað?  Ekki finnst þér réttlætanlegt að þeir sem kalla sig umhverfissinna fari ítrekað með rangt mál og dreifi röngum fullyrðingum til þeirra sem á hlýða?  Þess vegna sagðist ég vona að þú yrðir duglegur að leiðrétta rangfærslur þínar.  Þér finnst eflaust að það skipti varla miklu í hinu stóra samhengi hlutanna þó þér hafi orðið það á að fara með rangt mál t.d. varðandi Dynk.  En safnast þegar saman kemur.  Ef margir fara með rangt mál um marga hluti þá safnast þetta allt saman í einn stórglæp í augum þess sem þekkir ekki vel til málsins.  Ég efast til dæmis um að meirihluti þjóðarinnar viti hvar Dynkur er.  Og ég er fullviss um að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur ekki hugmynd um hvort Búðarhálsvirkjun skemmir Dynk eða ekki.  Varla þætti þér í lagi að Landsvirkjun eða Orkuveita Reykjavíkur færu rangt með staðreyndir, eða hvað?

Með kveðju frá huldumanninum

Dengsi (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 22:49

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vatnaflutningar:

Með Kvíslárveitu er umtalsverðu magni vatns veitt úr upprunalegum farvegi Þjórsár. Þetta mikla vatn rennur í Þórisvatn en norðvestan við það er Dynkur og hann er í Þjórsá. Núna er Dynkur aðeins svipur frá fyrri sjón áður en vatni var veitt suður og austur í Kvíslárveitu. Vatnið er nýtt í rafmagnsframleiðslu við virkjanir í Vatnsfelli, Sigöldu og Hrauneyjum og flæðir því alveg framhjá Dynk áleiðis í Sultartangalón. Fyrirhuguð Búðarhálsvirkjun er neðan við Dynk þannig að þetta ætti að vera allt saman mjög augljóst.

Vona eg að þetta skýri betur mál mitt Dengsi.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.9.2008 kl. 13:41

8 identicon

Sæll Mosi

Svona til upprifjunar (sjá athugasemd númer 2 hér að ofan) þá nefndir þú vatnaflutninga í tengslum við Bjallavirkjun, ekki Búðarhálsvirkjun.  Held að síðasta innlegg þitt hafi ekki skýrt mál þitt, nema þú teljir að vatn úr Kvísaveitu muni fara í gegnum Bjallavirkjun.  Er það svo?  Eru þetta vatnaflutningarnir sem þú tengir við Bjallavirkjun? 

Bestu kveðjur,

Dengsi

Dengsi (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 00:36

9 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Átta mig ekki á hvernig þú Dengsi tengir hugleiðingar um vatnaflutninga við þessa hugmynd um Bjallavirkjun. Vatnaflutningar hafa verið miklir sunnan Hofsjökuls og austan Þjórsár. Þeir eiga sinn þátt í að Dynkur hefur látið verulega á sjá og misst sína fyrri fegurð. Nú er hann ekki nema svipur hjá sjón.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 9.9.2008 kl. 11:43

10 identicon

Ja hérna.  Hér er orðrétt tilvitnun í það sem þú sagðir meðal annars í fyrstu athugasemd þinni hér að ofan, nánar tiltekið fremst í þriðju málsgrein:

"Þessi fyrirhugaða nýja hugdetta þeirra Landsvirkjunarmanna um Bjallavirkjun með tilheyrandi vatnaflutningum og uppistöðulóni við Fjallabaksfriðlandið er ekki kraftmeiri en svo að hún nær ekki einu sinni afköstum einnar túrbínu Sigölduvirkjunar!"

Þarna kemur fram að ÞÚ tengir vatnaflutninga og Bjallavirkjun.  Hvaða vatnaflutningar eru þarna á ferðinni?

Dengsi (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 18:59

11 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nenni valla að elta ólar við svona tittlingaskít. Auðvitað má finna smávægilega að öllu sem skrifað er og sagt en einhverjir vatnaflutningar hljóta alltaf að fylgja stíflum og myndun uppistöðulónum.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 10.9.2008 kl. 10:15

12 identicon

Mosi fór rangt með þegar hann sagði Búðarhálsvirkjun eyðileggja Dynk.  Mosi fór einnig rangt með þegar hann talaði um vatnaflutninga vegna Bjallavirkjunar.  Mosa finnst það vera tittlingaskítur að fara rangt með.  Gott að vita að þannig er í pottinn búið.  Tilgangurinn helgar meðalið í huga Mosa.

Dengsi (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 242941

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband