Hverju hefur stóriðjan skilað?

Dýrustu og afdrifaríkustu framkvæmdir eru vegna stóriðjunnar. Hvert starf kostar hundruði milljóna og mikil landsspjöll. Þessar framkvæmdir eru yfirleitt óafturkræfar.

Miklar freistingar fylgja stóriðju. Þessi fyrirtæki hafa stjórnmálamenn og jafnvel heilu stjórnmálaflokkana meira og minna í vasanum og veita umbun þegar þeir sýna skilning gagnvart framkvæmdunum.

Það er því engin undur né stórmerki að sömu aðilar séu á móti öllu sem viðkemur umhverfismál og innganga í EBE. Ef Íslendingar væru í EBE væru þessi mál tekin fyrir á þeim kontórum í Bruxell þar sem sækja ber um að opna fyrirtæki sem hafa mengandi starfsemi á sínum snærum. Þessi fyrirtæki verða að kaupa mengunarkvóta. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gefa hann, nema þeir áskilji sér einhver tillög í kosningasjóði eða aðrar leynigreiðslur? Það hefur lengi verið mikil vandræði að koma lögum á koppinn þar sem stjórnmálaflokkar beri að gera opinberlega grein fyrir uppruna og notum þess fjár sem þeir hafa undir höndum. Það er ekki nema um hálfur áratugur að slíkt tókst, loksins en þá hafði Kárahnjúkavirkjun verið byggð að mestu.

Stóriðjan skilur fyrst og fremst eftir sig vinnulaun verkamanna í álbræsðlunum og fyrir þjónustu á ýmsum sviðum.

Landsvirkjun er nánast lömuð eftir mjög óhagkvæmar framkvæmdir vegna Kárahnjúka. Arðsemin af þeim framkvæmdum er ekki nógu góð reksturinn í járnum. Þar koma mun hærri og hagkvæmari tekjur frá almenningsveitum en stóriðjunni!

Miðað við hversu fórnirnar eru miklar á bak við hvert starf í áliðnaðinum þá væri unnt að koma mun fleirum störfum á með mun minna fjármagni á öðrum sviðum. Benda má á t.d. skógrækt í þessu sambandi. Við búum í erfiðu landi en við getum ræktað hér allmikla barrskóga til þess að bæta landið okkar og aðstæður allar.

Við getum t.d. ræktað skóga í margskonar tilgangi. Við getum ræktað nytjaskóga, beitiskóga, útivistarskóga, skjól- og verndarskóga (t.d. vegna kornræktar) og einnig til að bæta samgöngur.

Kannski þarf ekki nema 10-20% af því mikla fé sem fer til nýs raforkuvers til að veita mun fleirum atvinnulausum Íslendingum vinnu með skógræktarstarfi. Við eigum að líta okkur nær, skoða betur hvaða kosti við eigum en ekki hlaupa alltaf eftir pilsfaldinum á einhverjum stóriðjuköllum út um allar jarðir!

Eigum við ekki að byggja upp atvinnulíf okkar á okkar forsendum fremur en hagsmunum stóriðjunnar?

Eg stend með sjóanrmiðum Árna Finnssonar hvað sem tautar og raular! 


mbl.is Þingmenn forðist gífuryrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Guðjón, ef þú átt við stóriðju á borð við ál, þá er þar um nauðsynlega vöru að ræða. Við notum ál í flugvélar, bíla, þakplötur, jafnvel potta, pönnur og bjórdósir. Það er semsagt mikil eftirspurn eftir áli í heiminum og hjá okkur íslendingum líka.

Nú er mikið talað um samvinnu milli þjóða. Sjálf tel ég að ef við leggjum okkar af mörkum, með umframorku og nægu landi, en af hvoru tveggja eigum við nóg, þá spörum við nágrannaþjóðum okkar óþægindin að setja niður þessa vinnslu í þéttbýlum löndum sem eiga enga orku aflögu nema með jarðefnabrennslu og mengandi að sama skapi.

Þó er ég ekki að tala um álver í hvert þorp. Eitt í hvern landsfjórðung þætti mér duga.

Kolbrún Hilmars, 19.3.2012 kl. 17:42

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Unnt er að endurvinna ál aftur of aftur án þess að gæði glatast. Í BNA er sáralítið endurunnið enda eru BNA menn að drukkna í sorpi.

Finnst þér að við eigum að fórna meira af náttúru okkar í þessa sóun?

Mér finnst það ekki.

Guðjón Sigþór Jensson, 19.3.2012 kl. 18:12

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Guðjón, mér yrði alveg ósárt um að hér yrðu settar upp endurvinnsluverksmiðjur í stað frumvinnslunnar, en kosta þær ekki jafn mikið í orku og landi reiknað?

Mitt sjónarmið er einfaldlega það að á meðan við notum hlutfallslega jafnmikið ál og aðrar þjóðir þá getum við ekki ætlast til þess að aðrir og verr settir framleiði það fyrir okkur. Aðrar þjóðir eiga líka, sumar hverjar, einhverja ósnortna náttúru eftir sem þeim þykir vænt um.

Kolbrún Hilmars, 19.3.2012 kl. 18:21

4 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Arðsemi af Kárahnjúkavirkjun er meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Skógrækt er ofmetin og víða ljótt að sjá þar sem menn hafa spillt landinu með trjám

Hreinn Sigurðsson, 19.3.2012 kl. 19:29

5 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Seðlabankinn sagði í skýrslu um stóriðju að "soga" þyrfti erlent lánsfé til landsins til að kæla atvinnulífið.  Afborganir af þessum erlendu lánum eru aldrei tekinn með þegar arðsemi stóriðjunnar er metin.  En það er augljóst að arðsemin í heildina er lægri af stóriðjuuppbyggingunni eftir aldamótin en útreikningar afmarkaðra þátta.

Lúðvík Júlíusson, 19.3.2012 kl. 20:06

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Lúðvik, þurfum við ekki að greina á milli hvar lánsfé kemur inn og hvar ekki?

Orkuframkvæmdirnar eru á okkar reikning og krefjast lánafyrirgreiðslu erlendis frá. Arðsemin hlýtur þá að miðast við söluverð orkunnar mínus kostnaðinn við að skapa orkuna.

Alþjóðlegu álfyrirtækin koma væntanlega inn með eigið fé sem skrifast aldrei sem lánsfé hérlendis. Hvorki gróði þeirra né tap heldur. Nema afkoman hafi áhrif á orkuverðið. Gerir hún það?

Kolbrún Hilmars, 19.3.2012 kl. 20:27

7 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sæl Kolbrún, því miður er þetta ekki rétt.  Seðlabankinn fjallar ítarlega um þetta í Peningamálum frá 2003.

"Vegna framkvæmdanna liggur fyrir að mikið hreint gjaldeyrisinnstreymi eigi sér stað á komandi misserum. Framsýnir og virkir fjármálamarkaðir taka þær upplýsingar strax með í reikninginn og skiptir þá í raun ekki máli að eitt til tvö ár séu í að innstreymið verði verulegt. Að öðru óbreyttu veldur þetta því að gengi krónunnar hækkar strax. Gengið hækkar einnig sakir þess að framkvæmdirnar skapa væntingar um hækkun Seðlabankavaxta þegar nær líður. Það hækkar langtímavexti strax þar sem þeir eru í meginatriðum samsettir úr væntum skammtímavöxtum í  framtíðinni. Það eykur vaxtamun gagnvart útlöndum á langa enda markaðarins, sogar inn erlent fjármagn og hækkar þannig gengið. Hækkun gengis í aðdraganda framkvæmdanna er því eðlileg og var Seðlabankinn og fleiri reyndar búnir að spá því að svo myndi verða. Gengishækkunin er reyndar hluti af markaðsviðbrögðum hagkerfisins vegna framkvæmdanna. Um leið hjálpa þau hagkerfinu til að rýma fyrir þeim án kollsteypu í efnahagsmálum. Gengishækkunin dregur úr verðbólgu og eykur slaka í hagkerfinu áður en  framkvæmdirnar hefjast að fullum krafti og því myndast minni spenna í hagkerfinu en ella."

Hækkun gengisins og þar af leiðandi aukinn viðskiptahalli verður því að taka með í reikninginn.  Eins og segir hér að ofan þá var það stefnan að kæla hagkerfið (skapa smá atvinnuleysi með því að gera útflutning órarðbærar) með hærri vöxtum og auknum innflutningi.  Það er ekki ókeypis.

Lúðvík Júlíusson, 19.3.2012 kl. 20:58

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér fyrir, Lúðvík. Þarna ertu að nefna hliðarverkanir sem fylgja erlendu fjárfestingunni. Sem ég tók auðvitað ekki með í reikninginn.

En þá er næsta spurning mín eðlilega; er ekki skynsamlegast að fara varlega í þessar erlendu fjárfestingar ef áhrifin verða svona neikvæð?

Kolbrún Hilmars, 19.3.2012 kl. 21:24

9 identicon

Sæll.

Hver á að borga öllu þessu fólki fyrir að gróðursetja tré? Ríkið? Hvaðan á það þá að fá þessa peninga? Hvernig á síðan að gera þessar trjáplöntur að tekjulind, jafnvel áratugum eftir að þær eru gróðursettar? Búum við í svona frjóu landi?

Svo eru dylgjur þínar um mútugreiðslur afar ósmekklegar. Væri ekki nær fyrir Samfylkinguna að byrja á því að skila öllum styrkjum frá útrásarvíkingunum. Hún hefur nefnilega ekki gert það ólíkt flokknum sem þú styrkir en hefur óbeit á ef ég skil rétt.

Á síðasta ári skilaði áliðnaðurinn okkur 225 milljörðum króna í gjaldeyristekjur. Tölvan sem þú notar er ekki keypt erlendis frá fyrir krónur. Við þurfum að finna fleiri kaupendur að raforku okkar. Álfyrirtækin kaupa ýmsa þjónustu hérlendis og hjá þeim vinna ekki bara verkamenn heldur ýmsir sérfræðingar. Það sem þú segir er því einfaldlega rangt. Hjá álfyrirtækjum hérlendis starfa 2000 manns og um 700 fyrirtæki byggja afkomu sína á áliðnaðinum.

HA forstjóri LV hefur því miður ákveðið að gerast léttadrengur ríkisstjórnarinnar í þessum málum og hefur á öðrum vettvangi verið hrakið það sem hann segir. Hinn stórgóði bloggari Bjarni Jónsson hefur gert þessu prýðileg skil á sínu bloggi. Eftir 10 eða 15 ár eigum við Kárahnjúka skuldlausa og þá fyrst fer sú virkjun að mala gull.

Já, hægt er að endurvinna ál en þessi athugasemd þín tengist ekki beint málefninu. Þú ættir kannski að beita þeir meira fyrir því að hlutir séu endurunnir og myndi ég glaður fylkja mér undir þitt merki á þeim vettvangi.

@Lúðvík: Þú veist auðvitað að fjárfestingar eru nauðsynlegar svo atvinna verði til og gjaldeyrir streymi inn í landið. Ég man ekki hvort það er eftir 10 eða 15 ár sem við eigum Kárahnjúka skuldlausa og þá fyrst fara þeir að mala gull fyrir okkur. Seðlabankinn býr að verulegu leyti til viðskiptahalla með sínum ákvörðunum. Hvaða stofnun skrúfaði gengi krónunnar upp úr öllu valdi misserin fyrir hrun og falsaði þar með gengi krónunnar? Vísbending: Það var ekki krónan sjálf sem gerði það. Þú sleppir líka að taka með í reikninginn aukinn kaupmátt, kannski fjárfesta fyrirtæki frekar í arðbærum framleiðslutækjum þegar gengið er þeim hagstætt en ella og gera sig þar með samkeppnishæfari. Þú gleymir algerlega hinni hlið peningsins.

@Kolbrún nr. 8: Best væri auðvitað að opinberir aðilar kæmu ekki nálægt þessum virkjunum. Við eigum að láta einkafyrirtæki eiga þessi mannvirki í einhvern tíma, láta þau um áhættuna af framkvæmdunum og lánunum en skattleggja þau bara hóflega þannig að þau sjái sér hag í þessum framkvæmdum. Svo hafa þau auðvitað Íslendinga í vinnu og þannig fáum við rentu af okkar auðlind í formi tekjuskatts. Nú borga ræflar eins og ég himinhá gjöld til OR vegna þess að OR tók lán í þetta og hitt sem stjórnmálamenn ákváðu að væri sniðugt. Einkaaðilar eiga að sjá um þetta en borga sanngjarnan skatt (sem ætti að vera tengdur t.d. álverði) af sínum tekjum. Þannig sleppur almenningur við áhættuna af þessum framkvæmdum en fær samt tekjur af þessari auðlind. Svipað fyrirkomulag tíðkast í olíuiðnaðinum víða um heim. Hið opinbera á ekki að vera í svona framkvæmdum, bara skapa hagstæðar aðstæður fyrir þær.

Helgi (IP-tala skráð) 19.3.2012 kl. 21:59

10 Smámynd: Hörður Einarsson

Meiru en ferðaþjónustan.

Hörður Einarsson, 19.3.2012 kl. 22:33

11 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Kolbrún, ef það er slaki í hagkerfinu eins og nú þá þarf ekki að kæla hagkerfið með háum vöxtum og innflutningi neysluvarnings.  Við núverandi aðstæður er því ekkert sem mælir gegn erlendri fjárfestingu.

Lúðvík Júlíusson, 19.3.2012 kl. 22:52

12 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Helgi, ég er ekki að taka efnislega afstöðu til fjárfestinga heldur er ég einfaldlega að benda á að þegar arðsemi stóriðjustefnunnar er reiknuð að þá er ekki allur kostnaðurinn tekinn með í reikninginn.

Lúðvík Júlíusson, 19.3.2012 kl. 22:54

13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

En Lúðvík, þú vitnaðir í "Peningamál Seðlabankans" hér að ofan þar sem segir að "strax" virki fjárfestingarnar á markaði og gengi krónunnar. Þetta má túlka þannig að neikvæðu áhrifin af fjárfestingunni komi fram jafnvel áður en fjárfestingin fer að hafa raunveruleg áhrif á umsetningu hér innanlands.

Hvernig geta núverandi slakar aðstæður verið "stikkfrí" ef ég má orða svo?

Kolbrún Hilmars, 19.3.2012 kl. 23:31

14 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

 .. þetta eru ekkert sérstaklega neikvæðar afleiðingar nema ef þær eru til að skapa slaka í hagkerfinu.  Nú þarf hvorki að hækka vexti né skapa slaka.  Þess vegna myndi erlent fjármagn fyrst og fremst fara í fjárfestingar í atvinnulífinu í stað þess að fara í neyslu eins og gerðist á árum stóriðjuuppbyggingar.

Lúðvík Júlíusson, 19.3.2012 kl. 23:41

15 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Kolbrún: Endurvinnsla er hagkvæmust sem næst uppruna sorps en ekki hér á landi fyrir BNA.

Hreinn: Forstjóri Landsvirkjunar fullyrti að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar væri óásættanleg. Ætli hann hafi ekki meira vit á þessu en leikmenn eins og við? Annars er skógrækt mjög vanmetin en langt því frá að vera ofmetin. Fjárfestingarkostnaður er aðeins brot af kostnaði við virkjanir, rafmagnslínur og annars. Rafmagnslínur eyðileggja mun meira en skógrækt, mun meiri sjónmengun er af þeim en trjám.

Sennilega er unnt að eyða meira atvinnuleysi með 10-20% af þeim kostnaði sem fer í virkjanir en byggja þessar sömu virkjanir. Þannig spörum við 80-90% af þeim kostnaði! Arðsemi skóganna er fjölbreyttur og fer eftir markmiðum: við getum vænst betri kornuppskeru þar sem korn vex í skjóli af skógum. Við bætum samgöngur með skógrækt t.d. undir Hafnarfjalli, Kjalarnesi, Öræfum og undir Eyjafjöllum þar sem vindur veldur oft miklum erfiðleikum.

Með öðrum orðum: við getum bætt heilmikið með skógrækt til að gera okkur lífið í þessu að mörgu leyti erfiða landi auðveldara.

Annars þakka eg málefnalega og öfgalausa umræðu.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 20.3.2012 kl. 10:24

16 identicon

@15:

Ég hef ekkert á móti skógrækt og myndi gjarnan vilja sjá hana meiri en þegar upp er staðið er þetta alltaf spurning um peninga. Þið vinstri menn hafði ekki einkarétt á umhverfisvernd þó þið hafið talið ykkur trú um það. Hver borgar fyrir gróðursetninguna og hver hefur tekjur af skógunum og eftir hve langan tíma? Hvað kostar svona lagað? Þú skautar algerlega framhjá þessum miklvægu atriðum. Vandinn við nytjaskóga er að þeir skila ekki tekjum fyrr en eftir svo langan tíma, ég held þú sért að flaska á því.

Forstjóri LV er að taka pólitíska afstöðu þannig að hann hefur ekki meira vit á þessu en Hreinn eða ég eða þú. Ef hæstvirtur HA vill fara fram með þessum hætti opinberlega og lítillækka sig þar með er það hans vandamál en svona málflutningur er auðvitað ekki ókeypis frekar en flest annað í heiminum. Hann var að tala um hærri arðsemiskröfu og hann getur auðvitað heimtað hana þangað til hann verður blár í framan en orkusölumarkaðurinn er samkeppnismarkaður og ef hann þykist geta sett fram óraunsæjar kröfur um arðsemi fara fjárfestar einfaldlega annað og þá fá engir Íslendingar vinnu, opinberir aðilar fá þá ekki skatttekjur og LV fær engar tekjur. Hversu skynsamleg er slík stefna? HA veit ekki betur en markaðurinn. Ef ég yrði forsætisráðherra yrði það eitt af mínum fyrstu verkum að sparka HA.

Þú mátt líka rökstyðja þessa fullyrðingu þína um "Sennilega er unnt að eyða meira atvinnuleysi með 10-20% af þeim kostnaði sem fer í virkjanir en byggja þessar sömu virkjanir. Þannig spörum við 80-90% af þeim kostnaði!" Ef þú getur sýnt fram á þetta með  rökum og tekið fjármagnskostnað með í reikninginn hefur þú gert okkur öllum mikinn greiða. Mundu að "Money makes the world go around" eins og segir í einhverju laginu.

Helgi (IP-tala skráð) 21.3.2012 kl. 17:53

17 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Helgi: Ætli forstjóri Landsvirkjunar líti ekki fyrst og fremst á arðsemi út frá viðskiptafræðilegum forsendum en pólitískum. Það sem ruglar þig í ríminu er að auðvitað var ákvörðunin um þessa Kárahnjúkavirkjun pólitísk, en ekki byggð á nægjanlegum viðskiptalegum traustum forsendum. Þar voru óvissuþættir allt of margir.

Það var einnig pólitísk ákvörðun að hverfa frá eldra fyrirkomulagi á skattgreiðslum álfyrirtækja. Þannig var álbræðslunni í Straumsvík nánast gefnir hálfur milljarður á ári á sumarþinginu 2007.

Gott er að heyra að þú hafir skilning á skógrækt. Í dag eru milli 30-40 ársverk tengd skjógarhöggi og þessum störfum fer fjölgandi með hverju árinu sem líður. Eru 30-40 störf ekki nálægt 10% af starfsliði álvera? Gæti vel trúað því. Þá eru afleiddu störfin sem eru væntanlega mun fleiri en´vegna álveranna. Skógrækt er nefnilega mjög mannfrek starfsemi. Þar kemur til söfnun og verkun, fræja ræktun skógarplantna í gróðararstöð, sala, dreifing og plöntun. Þannig má lengi telja. Skógrækt er mjög vanmetin sem atvinnugrein. á Íslandi þar sem allt of miklu fé og náttúru landsins hefur verið eytt.

Góðar stundir með skógrækt!

Guðjón Sigþór Jensson, 21.3.2012 kl. 18:11

18 identicon

Sæll.

Málflutningur þinn er trekk í trekk afar furðulegur. Óvissuþættir alltof margir varðandi Kárahnjúka? Hvaða þættir þá? Ekki nægjanlega góðar forsendur? Hvað vantaði upp á? Ekki trúa öllu sem HA segir.

Ég hef áður hér vísað í blogg manns (Bjarni Jónsson) sem er mér mun fróðari um það sem HA hefur sagt varðandi arðsemi Kárahnjúka og ásamt því sem ég segi að ofan varðandi samkeppnina um raforkusölu er ljóst að HA er alveg úti að aka og raunar merkilegt að svona menntaður maður skuli geta látið annað eins út úr sér.

Svo er sjálfsagt alger grundvallar viðhorfsmunur hjá okkur varðandi skattálagningu. Ég vil ekki hafa skatta en sem nemur 8-9% enda sýnir sagan greinilega hve skaðlegur stór opinber geiri er. Miklu betra er að fé sé í eigu einkafyrirtækja og einstaklinga en að stjórnmálamenn bruðli því í verkefni sem litlu sem engu skila. Hefur þú skoðað hve stóran hluta þinna launa þú greiðir til hins opinbera? Er það ekki í kringum 25%? Þá þýðir það að þú (sé miðað við 5 daga vinnuviku) vinnur allan mánudaginn fyrir hið opinbera og part af þriðjudeginum áður en þú ferð að vinna fyrir þínum nauðsynjum. Í hverjum mánuði vinnur þú um 5 daga bara fyrir hið opinbera. Sér enginn neitt athugavert við það? Má ekki kalla þetta þrælahald?

Varðandi Kárahnjúka skaltu muna vel þín orð eftir svona 15 ár og orð HA um arðsemi þeirra. Ef þú tekur rökum verður þú þá að éta ofan í þig það sem þú segir nú enda ljóst að þú áttar þig kannski á þessu þegar við eigum virkjunina skuldlausa og allar tekjur af henni renna óskiptar í okkar vasa.

Þú kýst einnig aftur að skauta algerlega framhjá spurningu mínu um hvernig megi gera skóga að tekjulind. Hvers vegna?

Annars styð ég skógrækt en við verðum samt að vera raunsæir, ekki satt?

Helgi (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 21:17

19 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Alltaf var vitað um að Kárahnjúkavirkjun væri mjög áhættusöm fjárfesting. Forstjórinn hefur staðfest það enda fagmaður á sínu sviði.

Skógrækt er langvarandi fjárfesting. Hún skilar ekki miklu en ríkulegra eftir því sem lengri tími líður og skógurinn vex. Talað er um 3 sig eftir gróðursetningu í nytjaskógrækt: Eftir 30 ár er um þriðjungur trjá felldur og önnur snyrt. Lítið er um við til timburframleiðslu annað en girðingarstaura, kurl og þ.h. Eftir önnur 30 ár er helmingur trjánna felldur og nýtist viðurinn að mestu sem borðviður. Eftir önnur 30 ár eða 90 ár er allur skógurinn felldur og nýtist að langmstu leyti sem verðmætur borðviður. Annað í kurl. Mikil verðmæti.

Í heildina er talið að arðsemi skógræktar sé 3-4% á ári, eðlilega mest eftir 90 ár! En þetta er langtímaverkefni sem ekki má gleyma og viðvarandi verkefni enda unnt að nýta mörg svæði. Allt fer eftir því að lögð sé rækt við þetta í upphafi: Undirbúningur á faglegum forsendum, heppilegt land valið, það friðað og undirbúið, síðan gróðursett.

Auðvitað er heppilegast að skógrækt sé stunduð á grundvelli einkaframtaksins en þetta er mjög mannfrek verkefni og þarfnast þolinmóðs fjármagns enda um langtímaverkefni að ræða. Hins vegar hafa skammsýnissjónarmiðin verið algerlega ráðandi þar sem fólk vill helst fá arðinn í gær fyrir fjárfestingu í dag!

Til þess að stórtæk skógrækt komist af stað þá þurfum við auk þess stuðnings frá því opinbera, sveitarstjórnum og ríki. Það dugar t.d. ekki að hefjast handa þar sem aðstæður eru óvinsamar. Það þýðir ekki að hafa þúsundir sauðfjár ofan í nýrækt þar sem skógrækt er stunduð.

Þá má geta þess að við höfum mikið gagn af skjólskógum, t.d. beitarskóga, eins til að auka kornþroska og vöxt, samgönguskógrækt má einnig nefna á vindasömum stöðum þar sem unnt er að bæta aðstæður m.a. með skógi.

Vona þetta svari einhverju.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 23.3.2012 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 242980

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband