Ísland var fyrst að afnema dauðarefsingar

Dauðarefsingar hafa alltaf verið umdeildar. Margir hafa verið drepnir eftir sýndarréttarhöld, kannski engin allt fram á þennan dag.

Dauðarefsing var fyrst innleidd í íslensk refsilög með svonenfdum Stóradómi skömmu eftir miðja 16. öld eða 1565. Refsingar voru óhóflega strangar, háar fésektir, búslóðamissir, líkamlegar refsingar og jafnvel dauðadómur ef miklar sakir voru, sumar sem okkur þykir vera mjög saklausar og dauðarefsingar með öllu óskiljanlegar. Þannig voru 18 ungar konur drepnar fyrir það eitt að eiga það sameiginlegt að vera fátækar og að ala börn utan hjúskapar. Ekki fer neinum sögum um að feðurnir hafi þurft að gjalda fyrir þátttöku sína í þunganum og er því eigi útilokað að konurnar hafi verið látnar sæta kynferðislegri misnotkun af versta tagi á bæjunum þar sem þær bjuggu, sjálfsagt við harðan kost. Mennirnir voru jú yfirleitt þokkalega velstæðir bændur sem hafa átt eitthvað undir sér og hafa að öllum líkindum mútað sýslumönnum og hreppsstjórum fyrir að hlífa sér. Annars er merkilegt að þessir dauðadómar frá 17. öld og fram undir miðja þá 18. voru einungis bundnir við konur. Þessi kvennadráp áttu sér stað við Drekkjngarhyl á Þingvelli.

Síðasta aftaka átti sér stað 1830 þegar Friðrik og Agnes voru hálshöggvin við Þrístapa í Vatnsdal. Dauðadómar voru dæmdir áfram fram ytir 1900 enda var dauðadómur í hegningarlögunum frá 1869. Sennilega var síðasti dauðadómurinn felldur fyrir tæpum 100 árum þegar kona ein var dæmd fyrir að myrða bróður sinn 1913.

Í Skandinavíu var dauðadómur afnuminn úr refsilögum skömmu eftir aldamótin 1900 en tekin aftur í lög t.d. í Noregi í uppgjörinu eftir heimsstyrjöldina síðari. Þannig var sá umdeildi Quisling tekinn af lífi og var refsiheimildin umdeild enda reyndi þar á spurninguna hvort refsilög mættu vera afturvirk. Almennt er slíkt fordæmt enda á að vera klárt þegar refsiverður verknaður er framinn, beri að refsa eftir gildandi hegningarlögum. Hvað Ísland varðar var dauðarefsing endanlega afnumin 1928 úr íslensku refsilögunum sem var gjörbreytt í ársbyrjun 1940.

Við megum vera stolt af því að vera með allra fyrstu löndum að afnema dauðarefsingu og í raun fyrsta þjóðin sem hættir við að framkvæma dauðarefsingar.

Góðar stundir

Mosi


mbl.is Krefjast afnáms dauðarefsinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að taka morðingja af lífi. En bara þegar 99,99% (~100%) sönnun liggur fyrir. Sá sem vísvitandi tekur saklaust líf á ekki skilið að halda sínu eigin.

Vendetta, 10.10.2011 kl. 20:06

2 Smámynd: Vendetta

Afnám dauðarefsingar í Noregi gerir það að verkum, að samvizkulaus og blóðþyrstur nýnazískur fjöldamorðingi eins og Anders Breivik fær aðeins 21 - 30 ár fyrir ódæðin. Sorglegt.

Vendetta, 10.10.2011 kl. 20:11

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað með þessi 0.01% eða einn af 10.000. Er réttlætanlegt að senda hann líka inn í eilífðina? Dauðarefsing er skelfilegt fyrirbæri: hver á að taka slíkt að sér? Ef við hefðum dauðarefsingu í hegningarlögunum átti saksóknari að krefjast dauðarefsinga vegna ákæranna í Geirfinns- og Guðmundarmálunum?

MBK

M

Guðjón Sigþór Jensson, 10.10.2011 kl. 20:12

4 Smámynd: Vendetta

Auðvitað ekki. Það lágu ekki neinar sannanir fyrir í Geirfinns- og Guðmundarmálinu.

Ég held að þú hafir misskilið eitthvað með þessi 99,99%, sem er þær líkur sem sannanir með dna vegna lífssýnis hafa. Engin ein sönnun getur staðið ein og sér, allar sannanir verða að benda til hins seka og engar sannanir gera hið gagnstæða. Vitni eru gagnleg sem vísbending en óáreiðanleg, játningar án annarra sannana eru einskis virði, allar kenningar verður að sannreyna með rannsóknum (forensics) og morðinginn verður að hafa verið á staðnum þegar fórnarlambið var drepið og morðvopnið rakið til hans. Með óyggjandi sönnunum. Þess vegna verður bæði morðvopnið og líkið að finnast. Án þeirra er ekki hægt að dæma til dauða.

Kannski eins gott að dauðarefsingar voru ekki á Íslandi fyrir nokkrum áratugum, því að íslenzka löggan var svo duglaus og áköf að finna blóraböggla í fyrrnefndu máli, að sumir halda að löggan sjálf hafi komið Geirfinni fyrir kattarnef.

Vendetta, 10.10.2011 kl. 20:47

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það á að vera úr sögunni allt tal um dauðarefsingar. Þær byggja á grimmd, hefndarþorsta og villimannslegu hugarfari. Geirfinnsmálið var afgreitt með pyntingum og dæmt í því þannig. Minnir svolítið á sovjét-rússland þar sem háttsettir gátu pantað dóma eins fólk kaupir hverja aðra þjónustu....

Óskar Arnórsson, 11.10.2011 kl. 03:40

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessi mál voru einstaklega erfið. Tveir menn hverfa án nokkurra skýringa frá fjölskyldum sínum. Grunur beinist að þessum ungmennum sem höfðu nokkru áður svikið út stórfé úr Pósti og síma m.a. til að fjármagna fíkniefnakaup sín. Þau eru áhrifagjörn og tengjast sér mun eldri manni, Tryggva Rúnari sem hafði á þessum árum átt nokkuð skrautlegan afbrotaferil að baki. M.a. var hann sakaður um að hafa kveikt í Litla Hrauni sem er afrek út af fyrir sig. Hann hefur verið virkilega „töff“ í huga þeirra og væntanlega fyrirmynd. Um það skal ekki fullyrt.

Yfirvöld voru á þessum tíma gjörsamlega óundirbúin að takast á svona erfið sakamál. Lögreglan hafði litla sem enga reynslu þar sem fíkniefni komu við sögu. Helst var að afbrotamenn kæmu upp um sig sjálfir á þessum árum. Fremur sjaldgæft var að lögreglumenn væru sendir erlendis til náms og þjálfunar um þetta leyti. Í þessu mjög erfiða umhverfi er fenginn eldri rannsóknarmaður frá Þýskalandi sem var á eftirlaunum. Hann kom íslensku lögreglunni fljótlega vonandi á rétta sporið, greiddi úr ýmsum vandamálum við fyrri rannsóknir og miðlaði af reynslu sinni. Hann lét t.d. taka grútskítugt gólfteppi úr íbúð grunaðra og sendi til rannsóknar Bundes Kriminalpolizei í Wiesbaden. Í ljós komu leifar af blóði sem gat verið úr Guðmundi Einarssyni en ekki neinna þeirra grunuðu. Á þessum hálmstráum byggðist áframhaldandi rannsókn. En eitt mikilsvert vantaði til að fullkomna glæpinn: Engin lík fundust, hvorki af Gerifinni né Guðmundi þrátt fyrir gríðarlega leit. Á þessu atriði byggðist vörn sakarborninga að miklu leyti enda ekki útilokað að báðir þessir menn hafi horfið af öðrum ástæðum, t.d. leynst um borð í skipum á leið til útlanda og horfið þar af ókunnum ástæðum. En rannsókn málsins fór stundum út af sporinu m.a. vegna rangra sakargifta gagnvart mönnum sem reyndust síðar saklausir. M.a. spunnust miklar deilur á Alþingi milli þingmanna Alþýðuflokks og Framsóknar, var því meira að segja haldið fram að þar kæmi Klúbburinn mikið við sögu en hann var rekinn af mönnum tengdum Framsóknarflokknum. Fyrir þá sem ekki þekkja, þá stóð hann þar sem áður var Fúlatjörn en þangað rann lækur úr Kringlumýri til sjávar. Nú stendur Hótel Cabin við horn Borgartúns og Kringlumýrarbrautar þar.

Mjög æskilegt er að þessi mál verði könnuð til hlýtar enda hlýtur það að hafa verið martröð fyrir þá sem grunaðir voru um þessi mannshvörf. En lögreglan hefur metið það á þessum árum að þar sem þetta fólk hafi gerst brotlegt áður, hefðu þau meira á samviskunni. Rannsóknin gekk út á það.

Eg var í laganámi þegar þessi mál stóðu yfir og fátt meira talað um en þau. Mikinn fróðleik er að lesa í dómi Hæstaréttar. Mjög sennilegt er að ýmsar veilur við rannsókn málsins og síðar við ákæru hafi þegar komið fram þegar þessi mál voru í gangi en talið rétt að skauta fram hjá þeim.

Nú vitum við meira um áhrif fíkniefna en við erum ekki mikið betur stödd hvað viðkemur að uppræta afbrot tengd þeim.

En það sem mestu máli skiptir í dag: Þessir sakborningar í sakamálinu áttu allir síðar eftir að hverfa að mestu frá fyrri iðju og gerast nýtir og góðir borgarar, að því að best er vitað.

Það er einmitt kjarninn í refsifræðinni að betur er að láta sekan mann sleppa en refsa saklausum. Lærdómurinn af þessu máli er að gera verður miklar kröfur til sönnunar. Það er eitt af meginverkefnum lögreglu sem kemur að stað þar sem refsiverður verknaður hefur átt sér stað: Verja staðinn til að koma í veg fyrir að sönnunargögn glatist.

Góðar stundir.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 11.10.2011 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 242936

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband