Hagur heimilinna og niðurstaðan í Icesave

Þetta Icesave mál hófst með starfsemi gamla Landsbankans í Bretlandi og síðar Hollandi. Fengin voru gríðarleg skammtímalán á mjög lágum vöxtum einkum frá Asíu. Þessir miklu fjármunir voru endurlánaðir með mun hærri vöxtum en til lengri tíma. Meðan unnt var að framlengja þessi skammtímalán þá gekk allt eftir óskum. Með lánsfjárkreppunni gekk ekki að fá þessi lán framlengd eða endurfjármögnuð. Þá gripu þeir Landsbankamenn til þess ráðs að leita til sparifjáreigenda í Bretlandi og buðu hærri innlánsvexti en aðrir. Meðan traust var á bankanum, þá gekk allt eftir. En þeir Landsbankamenn höfðu sem aðrir bankamenn spennt bogann um of og reist sér hurðarás um öxl.

Nokkrum dögum eftir hrunið eða 11.október 2008 var fyrsta Icesave samkomulagið undirritað. Síðari samningar gengu út á að lina upphaflegu ákvæðin sem voru nokkuð hörð. Samningarnir gengu út á að þrotabú gamla Landsbankans endurgreiddi Bretum kröfur þeirra miðað við lágmarkstryggingar. Allar útistandandi skuldir Landsbankans og eignir voru „frystar“ og beint inn á innlánsreikning í vörslum Englandsbanka. Nú hafa verið greiddar 93% af þessum kröfum  og öll líkindi eru til að allt verði greitt að lokum og ekki nóg með það, um 15-20% muni skila sér með afborgunum og vöxtum útistandandi skulda!

Samningar þessir gengu út á það að ef ekkert fengist meir af endurgreiðslum af útistandandi skuldum þrotabús Landsbankans, þá myndum við lenda í súpunni. En alltaf var deginum ljósara að þetta voru fyrst og fremst formsatriði.

Hefði samningurinn verið undirritaður af Ólafi Ragnari á sínum tíma, hefði traust Íslendinga erlendis aukist strax. Við hefðum fljótlega fengið að njóta betri kjara erlendis varðandi vexti og viðskiptakjör. Í stað þess höfum við verið að greiða óhagstæðustu vexti í fjármálaheiminum, hag heimilanna sem annarra aðila á Íslandi til mikils tjóns. Má kannski líta svo á, að þessi svonefndi „sigur“ í þessu dómsmáli hafi verið ansi dýrt keyptur.

Eg leyfi mér að líta á sem hverja aðra hræsni að skilja þessi mál í sundur, svo samannjörfuð eru þau. Hagur heimilanna er undir því komið hvernig kjörin eru á eyrinni. Þrjóskan við að reyna að koma sér undan ábyrgð getur verið dýrkeypt.

Nú er verkefni fyrir hagfræðinga að reikna út hvort við hefðum tapað eða grætt á Icesave samningun um hefðu þeir verið staðfestir á Bessastöðum. Ef svo reynist að við höfum tapað, þá má segja að Ólafur Ragnar sé dýrasti forseti lýðveldisins.


mbl.is Eftir Icesave er komið að heimilunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta hefur þegar verið reiknað. Við værum í dag búin að tapa 80 milljörðum ef Buchheit samningurinn hefði verið samþykktur. AGS hefur áður sagt allt að 300 milljarða. Þarna er komið ákveðið bil.

En sú staðhæfing sem allur þessi málflutningur byggir á hjá þér, að traust á Íslendingum erlendis hefði einhvernvegin aukist hefðu þeir lagst á fjóra fætur, er alveg fullkomlega órökstudd.

Engar vísbendingar eru um að traust á Íslendingum erlendis hafi dalað sérstaklega vegna andstöðu við skuldaþrælkun. Þvert á móti hef ég fundið fyrir aðdáun margra útlendinga á hugrekki Íslendinga í þessum málum, og víða erlendis er jafnvel litið til íslensku þjóðarinnar sem ákveðinnar fyrirmyndar að því hvernig þegnar annara ríkja gætu haft áhrif á þróun í stjórnmálum sem er almenningi óheillavænleg.

Hinsvegar er verkefni fyrir félagsfræðinga að skoða þá skrýtnu hegðun að halda opinberlega fram órökstuddum fullyrðingum æ ofan í æ á þeim opinbera vettvangi sem upplýsingatæknin hefur fært almenningi. Jafnframt hlýtur það að vera verkefni fyrir fagfólk í geðheilbrigðisfræðum að rannsaka þá þráhyggju sem felst í að verja órökstuddu fullyrðingarnar út fyrir gröf og dauða, jafnvel eftir að þær hafa verið afsannaðar.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2013 kl. 14:35

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fróðlegt væri að sjá þann útreikning og hverjar forsendur eru. Einnig hver hafi komið þar við sögu.

Að öllum líkindum hefði hag heimilanna verið betur borgið með að koma þessu vandræðamáli frá. þá hefði mátt vænta hagstæðra lánsfjármats með lægri tilkostnaði þ. á m. vaxta. Það hefði stuðlað að meiri hagvexti í landinu og aukinni fjárfestingu.

Þetta eiga hagfræðingar eftir að meta.

Hvað þessi uppákoma með að hafna samningum á eftir að kosta okkur á eftir að reikna.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 17:59

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fróðlegt væri að sjá þann útreikning og hverjar forsendur eru. Einnig hver hafi komið þar við sögu.

Held það hafi verið GAMMA sem reiknaði kostnað Buchheit samningsins, og í því var stuðst við rauntölur til dagsins í dag hvað varðar forsendur. 80 milljarðar, sem hvergi voru til og við værum komin í greiðslufall.

Efri mörkin 335 milljarðar koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki innsýn í kristalkúlu þeirra, held þó að um einhverskonar "vegið áhættumat" sé að ræða (fagheiti yfir gisk).

Viljirðu fræðast nánar um þessar niðurstöður er sjálfsagt hægt að leita til þeirra aðila sem þær fengu hafirðu mikinn áhuga á því.

Að öllum líkindum hefði hag heimilanna verið betur borgið með að koma þessu vandræðamáli frá.

Þess vegna höfum við einmitt verið að vinna að því, og með því að spara 80 milljarða gerir það strax 800 þús. kall á hvert heimili. Þetta hefur líka rutt brautina fyrir aðra, t.d. Hagsmunasamtök heimilanna.

Með gagnályktun mætti segja sem svo að það hafi e.t.v. þjónað ágætlega hagsmunum þeirra sem ekki vilja gera neitt til að lagfæra skuldavanda heimilanna, að halda Icesave málinu okkur í fjögur ár.

þá hefði mátt vænta hagstæðra lánsfjármats með lægri tilkostnaði þ. á m. vaxta. Það hefði stuðlað að meiri hagvexti í landinu og aukinni fjárfestingu

Aukin erlend fjárfesting = aukin erlend skuldsetning. Skilurðu alls ekki að það var einmitt svoleiðis sem var barist gegn í Icesave málinu? Minni skuldir eru líka skynsamlegasta leiðin til að lækka vaxtakostnað!

Þetta eiga hagfræðingar eftir að meta. Hvað þessi uppákoma með að hafna samningum á eftir að kosta okkur á eftir að reikna.

Það voru meðal annars hagfræðingar sem mátu þetta sbr. það sem vísað er til að ofan. Niðurstöðurnar eru þær að með því að hafna samningunum hafi sparast að minnsta kosti 80 milljarðar. Reyndar má færa rök fyrir því að sparast hafi 20 milljarðar til viðbótar sem voru í tryggingasjóði innstæðueigenda og fá nú liggja þar enn óhreyfðir. Samtals gerir það a.m.k. 100 milljarða. Geri aðrir betur og verði okkur að góðu.

En hagfræðingar hafa alls ekki svör við öllu, reyndar er þetta hrun sumum þeirra að kenna að hluta til, þ.e.a.s. hagfræðikenningum sem margir þeirra trúðu á og hafa reynst rangar. Þeir geta til dæmis ekki lagt mat á lögfræðihliðina, en það liggur fyrir dómur um að af hálfu Íslands var flest allt gert rétt í málinu. Hefðum við hinsvegar gert samning um að setja ríkisábyrgð á innstæðutrygginguna, sem er óheimilt samkvæmt tilskipuninni (!), þá hefðum við einmitt sennilega gerst brotleg gagnvart EES-samningnum, og líklega getur enginn lagt nákvæmt mat á hverjar afleiðingar þess hefðu orðið. Reyndar má færa rök fyrir því, vegna þess að það var einmitt þetta sem Bretar og Hollendingar gerðu þ.e. lögðu ríkisábyrgð á innstæðutrygginguna án þess að gæta að réttri framkvæmd, þá hafi þeir einmitt brotið innstæðutryggingatilskipunina og hafi svo reynt að gera Ísland meðsekt með samningsgerð þar sem við hefðum játað aðild okkar að brotinu með því að gangast í ríkisábyrgð að ósekju. Þetta er það sem fyrirliggjandi gögn málsins sýna í rauninni.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2013 kl. 19:35

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Guðmundur:

Kíktu á bloggsíðu Björgvins Guðmundssonar:

Ice save: Tafirnar hafa kostað þjóðarbúið mikið

Slóðin er: http://gudmundsson.blog.is/blog/bjorgvin_gudmundsson/entry/1279839/

Ekki er eg einn um efasemdir þessa „afreksverks“ Ólafs Ragnars og annara félaga hans í stjórnarandstöðunni.

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 242837

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband