Svikamylla?

Skil ekkert í þessum tölum. Stautaði mig fram úr bókhaldstölum í nokkrum fyrirtækjum sem eg átti hlut í áður en þeim var rænt. Stjórnendur kepptust hver um annan þveran að lýsa yfir góðum rekstri og töldu að þeir ættu því góð laun skilin.

Svo kom allt í einu í ljós að þessir sömu stjórnendur höfðu hver um annan þveran stofnað til gríðarlegra skuldbindinga og hlutaféð varð að engu.

Síðan lít eg á svona bókhaldstölur eins og hvern annan tilbúning, menn geta þess vegna verið að státa sig af góðum afköstum við að hafa fé af samborgurunum sínum og þar með að hafa fólk að fíflum.

Aldrei hyggst eg kaupa aftur hlutabréf.

Mosi


mbl.is Hagnaðist um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Guðjón, þú þarft ekki að hætta að kaupa hlutabréf almennt, kauptu bara aldrei hlutabréf í plat-fyrirtækjum eins og bönkum, fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum í eigu þeirra, sem mörg hver eru skúffufyrirtæki. Aldrei taka við ráðum frá bankaráðgjafa. Aldrei. Það gera bara bláeygir einfeldningar, sem geta ekki aðgreint sannleika frá blekkingum og lygum. Ráðgjafinn fær sérstakan bónus fyrir að lokka þig í áhættusamar fjárfestingar (sem hann kallar öruggar) og hefur þetta mottó að leiðarljósi: It is morally wrong to allow suckers to keep their money. Og þú tapar. Það hefur ekkert breytzt hvað bankana varðar.

Áður en þú kaupir hlut í fyrirtæki, kynntu þér sögu fyrirtækisins, staðfesta ársreikninga 10 ár aftur í tímann, óháð metnar markaðshorfur fyrir vörur/þjónustu fyrirtækisins og sögu allra yfirmanna fyrirtækisins. Ef einhver yfirmaður eða (með-)eigandi hefur komið nærri öðru fyrirtæki sem hefur orðið gjaldþrota, skaltu hlaupa æpandi burt án þess að opna pyngjuna. Mundu að þetta eru þínir peningar og þar af leiðandi þitt tap. Því að ég geri ráð fyrir að þú sért heiðarlegur og sért ekki að fjárfesta fé annarra.

Vendetta, 14.9.2011 kl. 12:16

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þakka þér ábendinguna en það fór nú svo að það fyrirtæki sem eg átti mest í, Jarðboranir starfa enn ásamt Björgun sem var keypt m.a. í þeim tilgangi að jafna tekjustreymið yfir árið. Bæði þessi fyrirtæki voru gleypt með manni og mús skömmu eftir að Íslenski hlutabréfasjóðurinn breytti um nafn og nefndi sig Atorka. Það var síðan vélað af Hannesi Smárasyni og fleirum athafnamönnum að selja það fyrirtæki gegn hlutabréfum í Geysi green sem aftur átti Hitaveitu Suðurnesja að stórum hlut.

Síðan þessi kolltsteypa kom hefi eg ekki keypt hlutabréf fyrir eina einustu krónu og ætla mér ekki að gera það meðan enn er möguleiki að hlunnfara litlu hluthafana.

Ef rétt væri að staðið ætti atkvæðaréttur og þar með völd í fyrirtæki að vera bundin tveim mjög einföldum skilyrðum:

1. að hlutafé hafi raunverulega verið greitt til félagsins en ekki hlutafé aukið með sýndarmennsku eins og þegar hlutafé í Existu var hækkað um 50 milljarða án þess að ein einasta króna væri greidd inn í félagið.

2. að hlutafé sé ekki veðsett. Um það má deila hversu slíkt veðbann eigi að ná mörg ár aftur fyrir sig en eðlilegt er að veðsettum hlut fylgi ekki atkvæðisréttur. Kannski að setja mætti reglur um að veðhafi fari með atkvæðisréttinn.

Um þetta þarf að setja skýrar reglur.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 14.9.2011 kl. 13:48

3 Smámynd: Vendetta

Það var skortur á reglum og takmörkunum á hlutabréfaviðskiptum og lánsfjárveðum, sem gerði það að allir bankar og sparisjóðir fóru á hausinn hér á landi, en aðeins tveir miðlungsbankar í Danmörku. Það eru ennþá engar haldbærar reglur komnar um bankaviðskipti. Þess vegna munu bankarnir enn á ný verða rændir innanfrá og fara á hausinn og síðan kemur önnur kreppa ofan í núverandi. Og þá munu þau verktaka- og framleiðslufyrirtæki sem hafa rétt komizt áfram á lappirnar aftur fara í þrot enn á aftur.

Vendetta, 14.9.2011 kl. 18:17

4 Smámynd: Landfari

Pétur Blöndal hefur flutt að ég held þingsályktunartillögu um það sem hann kallar gagnsæ hlutafélög. Þar er tekið á öllum þessum málum sem þið nefið og meiru til. Þar á meðal þessum krosseignatengslum sem spiluðu stóran þátt í hruni spilaborgarinnar.

Þó ráðin þín Vendetta sé ágæt er það óraunhæft að meðaljóninn sem ætlar að fjárfesta í hlutabréfum sé í aðstöðu til rannsaka alla stjórnedur og eigendur ofan í kjölinn.

Landfari, 14.9.2011 kl. 21:13

5 Smámynd: Vendetta

Já, ég meinti nú bara þær upplýsingar sem væru aðgengilegar, t.d. að slá inn nafninu í google og athuga hvaða ormagryfja opnist... Því að það er ekki eins og um sé að ræða tugir þúsunda vafasamra fjármagnskúreka, í mesta lagi nokkur hundruð.

Vendetta, 14.9.2011 kl. 21:59

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Tillögur Péturs Blöndals ganga of skammt. Þær eru meira um innri starfsemi fyrirtækja en þar er ekkert komið inn á takmörkun atkvæðaréttar og valds fyrirtækjanna.

Ástæður falls þessara fyrirtækja var að þeim var stjórnað með skammtímasjónarmið í huga en ekki með nein langtímamarkmið í huga. Þeir sem stýrðu þeim vildu hámarka laun sín og arðgreiðslur og því fjaraði mjög skyndilega undan þeim.

Eg hefi átt margar stundirnar að þefa uppi fróðleik misjafnlega skemmtilegan tengdu spillingu og sögu hennar. Kannski má rita nokkrar bækur um alla þá pretti og undirferli. Læt nægja að vísa í grein um þessi mál sem eg ritaði í Morgunblaðið fyrir ekki löngu síðan. Þar er rakið að nokkru saga Atorku, Jarðborana, Geysis green og Hitaveitu Suðurnesja og hvernig það allt tengist Magma energy. Niðurstaða mín er sú að GGE hafi verið n.k. svikamylla til að hafa fé af lífeyrissjóðum og hluthöfum eins og okkur Pétri.

Þess má geta að ýmisr innherjar sáu við þessu eins og einn stjórnarmanna Atorku, Örn Andrésson sem seldi allt hlutafé sitt í fyrirtækinu um miðjan sept. 2008 á viðunandi verði. Eftir það féll fyrirtækið.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.9.2011 kl. 10:17

7 Smámynd: Landfari

Mosi, er þessi grein einhvers staðar aðgengileg þeim sem ekki kaupa moggann?

Landfari, 15.9.2011 kl. 13:07

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Landfari:

Greinin birtist í Fréttablaðinu, ekki Morgunblaðinu 22.júlí og hljóðar svo: 

Þjófar á nóttu sem degi

Lýður Guðmundsson ritar grein í Fréttablaðið 6.7. um bankahrunið, kollsteypuna sem íslenskir fjárglæframenn áttu veg og vanda af: „Mikilvægasta rannsókn allra tíma“. Lýður sem er einn af þessum um það bil 30 fjárglæframönnum sem áttu hlut að máli, lítur yfir farinn veg og auðvitað er bankahrunið einhverjum illum öflum að kenna sem voru að rannsaka aðdragandann að bankahruninu. Grein Lýðs er dæmigert varnarhjal manns sem telur sig vera hafinn yfir allan vafa.

Hvaða tilgangi þjónar málstað hans að ráðast á Evu Joly, Þorvald Gylfason, Egil Helgason og Gunnar Andersen? Að mati Lýðs gerði hann sjálfur ekkert rangt, hvort sem það var stöðutaka gegn íslensku krónunni eða eitthvað annað eins og gríðarleg erlend skuldsetning fyrirtækisins sem hann er stjórnarformaður.

Annars er grein Lýðs athyglisverð út frá þeim staðreyndum sem hann beinir
sjónarmiðum sínum ekki að. Hann víkur ekki einu einasta orði að þeirri aðferð sem hann átti þátt í að ræna almenna hluthafa sparnaði sínum. Hlutafé Exista var aukið um 50 milljarða án þess að ein einasta króna væri greidd til félagsins en hluthafar beittir einhverskonar blekkingum að hlutafé í huldufyrirtæki væri virði þessara 50 milljarða! Tilgangurinn var að sjálfsögðu yfirtaka ekki í skjóli myrkurs, heldur um hábjartan daginn! Öllum hluthöfum var boðin yfirtaka þar sem hver króna í fyrirtækinu væri greidd með einungis 2 aurum!

Undirritaður flutti tillögu á hluthafafundum í ýmsum fyrirtækjum sem gekk út á takmörkun atkvæðaréttar hlutafjár. Atkvæðaréttur ætti eðlilega að vera bundinn við að hlutafé hefði raunverulega verið greitt til félagsins og að veðsett hlutafé fylgdi ekki heldur atkvæðisréttur. Með þessu hefðu braskarar sem höfðu þennan hátt á, verið gerðir valdalausir og áhrifalausir í atvinnulífi landsmanna. Ein meginástæðan fyrir bankahruninu var gegndarlaus spákaupmennska þar sem hlutafé var veðsett til þess að kaupa meira hlutafé til að komast yfir enn meiri völd og áhrif á kostnað venjulegra hluthafa sem og lífeyrirssjóða sem töpuðu gríðarlegu fé. Þessir síðasttöldu aðilar höfðu greitt fyrir hlutafé með beinhörðum peningum og  áttu því einir að hafa virkan atkvæðisrétt. Ef tillaga mín hefði almennt verið samþykkt hefði að öllum líkindum aldrei komið til bankahrunsins.

Exista er dæmi um félag sem stýrt var með skammtímasjónarmið í huga. Greidd
voru himinhá laun og aðrar sporslur til stjórnenda meðan allt virtist leika í lyndi. Sennilega var ýmsum bókaldsbrellum beitt til að fegra hag félaga. Exista var n.k. bókhaldsfélag kringum tryggingafélagið VÍS en Samvinnutryggingar fékk afhent í fyrirgreiðsluskyni elsta tryggingafélagið, Brunabótafélag Íslands sem var í ríkiseigu. Það félag skilaði góðum hagnaði öll þau 90 ár sem það starfaði sjálfstætt auk þess sem það átti drjúgan þátt í að koma á fót og kostaði ríkulega brunavarnir í landinu.

Einhverju sinni flutti Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur eftirminnilega
útfararræðu yfir þjóf sem þá var nýlátinn: „Sá framliðni var sífellt
starfandi, - meðan aðrir sváfu var hann ætíð vakinn og sofinn yfir iðju sinni. Það sem sumir söknuðu, fannst iðulega hjá honum, enda var hann einstaklega hirðusamur um eigur annarra“. Einhvern veginn þannig var sú útfararræða en því miður brunnu allar afburðaræður sr.Bjarna þá Lækjargata 12 brann.

Þetta má allt hafa í huga þegar afrek Lýðs Guðmundssonar og annarra afreksmanna í fjármálalífinu verða metin, hvort sem það verður þeim til heiðurs eða eilífðar háðungar.

Guðjón Jensson
Mosfellsbæ

Greinin er á slóðinni:

http://www.visir.is/thjofar-a-nottu-sem-degi/article/2011707229977

Góða skemmtun

GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 16.9.2011 kl. 09:27

9 Smámynd: Landfari

Góð grein og áhugaverðar tillögur um takmarkaðan atkvæðarétt veðsettra og ógreiddra hluta. Veit samt ekki alveg hvernig það kemur út.

Ég átti hlutabréf í banka sem ég greiddi að fullu en þurfti síðar að lána sem veð vegna láns sem lítið fyritæki sem ég átti þurfti að taka. Ég er eki viss um að mér hefði fundist sanngjarnt að missa atkvæðaréttinn við það.

Landfari, 16.9.2011 kl. 09:57

10 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Um þessar tillögur hefi eg rætt við ýmsa málsmetandi menn á borð við Árna Vilhjálmsson fyrrum prófessor við Viðskiptadeild HÍ. Hann taldi þegar eg kynnti þessar hugmyndir fyrst að ef þessi sjónarmið hefðu verið virt, þá væri ekki eins illa komið fyrir okkur og með hruninu. En þessar reglur þyrftu að vera í landslögum, hlutafélagalögunum og gilda um öll fyrirtæki. Ekki dygði að nokkur félög tækju þetta inn í samþykktir sínar.

Ef maður lánar einhverjum e-ð eða veðsetur, þá takmarkast umráðaréttur manns og afnotaréttur. Á ekki slíkt að vera almennt um veðsettar skásetningaskylda hluti eins og hlutabréf?

Með því að hafa þetta fyrirkomulag eru rofin tengsl milli hlutafjáreigenda og umráðarétt yfir hlutabréfi. Ef einhver sem þarf að veðsetja hlutabréf ætti að vera ljóst að hann hafi ekki lengur atkvæðarétt og þar með áhrif á vald yfir félaginu.

Varðandi Magma, Atorku og Geysi Green þá birtist fyrr grein í Morgunblaðinu um þær athuganir mínar.

Góðar stundir

GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 16.9.2011 kl. 13:31

11 Smámynd: Landfari

Já ég er ekki frá því að þetta væri til mikilla bóta því eins og kerfið virkar í dag geturður ráiðið heilu félögunum án þess að eiga í raun nokkuð í því.

Landfari, 16.9.2011 kl. 17:16

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ætli „nettó“ eign sé ekki raunhæfari mælikvarði en „bruttó“? Útrásarvarganir fóru með gríðarleg völd í skjóli hlutabréfaeignar sem var veðsett, meira segja yfirveðsett í mörgum tilfellum. Þeir keyptu skuldlitlar jarðir og fasteignir, seldu sjálfum sér á margföldu verði, fengu bankalán út á „markaðsverð“ eignanna sem þeir sjálfir höfðu nánast búið til. Var þetta ekki „bólan“ sem síðar sprakk?

Lífeyrissjóðir og valdalausir smáhluthafa töpuðu fjárfestingum sínum. Þjófarnir komust undan með þýfið, jafnvel um hábjartan dag.

GJ

Guðjón Sigþór Jensson, 17.9.2011 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 242837

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband