Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Pólitískt hugrekki byggða á skynsemi!

Gjaldeyrishöftin hafa dregið margt einkennilegt fram. Þannig tókst bröskurum að koma hluta af orkulindum þjóðarinnar í hendur erlendra aðila. Geysir Green Energy og REI virðast hafa verið fyrirtæki stofnað í þeim eina tilgangi að hafa fé af venjulegu fólki og lífeyrissjóðunum til að braska með.

Nú þarf Seðlabankinn og stjórnvöld að fara vel og vanda yfir þetta mál, meta áhættuna og kostina og taka í framhaldi skynsamlega ákvörðun! Jón Daníelsson hefur yfirleitt reynst mjög varkár hagfræðingur þó svo að mörgum finnst hann setja stundum fram glannalegar yfirlýsingar. Hugmynd hans um gjaldeyrisuppboð er mjög skynsamleg enda byggist hún á góðum og gildum rökum.

Ljóst er, að efnahagur Íslendinga er þokkalega góður þrátt fyrir allt. Verðmæti útflutnings hefur verið meiri en innflutnings. Tekist hefur að verulegu leyti að rétta af þá slagsíðu sem Þjóðarskútan fékk á sig með bankahruninu. Nú er ásættanlegur jöfnuður milli útflutningsgreina og innflutnings sem við verðum að reyna að takmarka sem mest og miða við raunverulegar þarfir okkar. Óþarfa lúxús og bruðl þarf að stoppa af sem mest enda unnt að spara umtalsverðan gjaldeyri.

Hver er áhættan af að afnema gjaldeyrishöftin? Hverjir hafa hagnað af gjaldeyrishöftunum? Ætli það séu ekki braskaranir?

Góðar stundir!


mbl.is Hægt að afnema höftin á 3 mánuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofthreinsibúnaður og ókeypis mengunarkvóti

Íslenskur hugvitsmaður, Jón Þórðarson, sem starfaði sem verkstjóri á Reykjalundi, datt fyrir um 35 árum niður a hugmynd um hvernig hreinsa mætti útblásturinn. Einhverra hluta vegna varð minna úr þessum hugmyndum, sennilega vegna þess að hann náði ekki að fulkomna hugmynd sína og að öðrum hafi dottið niður á betri lausnir. Alla vega þá varð þessi íslenski hugvitsmaður undir í þessari gríðarlegu samkeppni.

Að flytja þurfi 1000 tonn allar götur frá Kína á tveim skipum er nokkuð undarlegt. Flest kaupför geta borið nokkur þúsund tonn og undarlegt að tvö eða jafnvel fleiri skip þurfi að sigla með slatta hvert um sig af þessum nýja hreinsibúnaði.

Álframleiðslu fylgir umtalsverð mengun, bæði vegna flúors og CO2.

Þumalputtareglan er að fyrir hvert framleitt áltonn verði tvöfalt magn varhugaverðugra lofttegunda. Hvað skyldi um 30 ára gamall skógur geta bundið árlega á hektara (10.000 m2)? Talið er að sæmilega þéttur skógur bindi árlega um 4-5 tonn á hektara. Ef hér á landi eru framleidd milljón tonna af áli, þá þyrftum við að hafa skóg á nálægt 400.000 hekturum lands eða rúman einn hektara á hvern íbúa landsins til að binda CO2 aftur.

Í heila öld hafa verið gróðursettar trjáplöntur í um 40.000 hektara. Það er einungis 10 hluti þess skógar sem hér þyrfti að vaxa til að binda jafnmikið og álverin þrjú menga! Stjórnvöld hafa fram að þessu nánast „gefið“ álbræðslunum eftir réttinn að fá að menga.

Þetta er okkur Íslendingum til mikils vansa enda þykir sjálfsagt í öllum siðmenntuðum löndum heims að mengandi starfsemi þurfi að kaupa eða útvega sér mengunarkvóta.

Hvernig stendur á því að álverunum sé ekki gert að stunda skógrækt eða styðja við skógrækt?

Góðar stundir!


mbl.is Framkvæmdir í fullum gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsýni í fyrirrúmi

Hvað á 300.000 manna þjóð að blása út Stjórnarráðið? Því miður var mörgum ráðuneytum nánast splundrað vegna stjórnarmyndana Framsóknarflokksins og SJálfgstæðisflokksins. Í stað þess að hafa tiltölulega fá ráðuneyti var stefnan að hafa þau mörg og jafnvel dreifa málaflokkum á fleiri en eitt ráðuneyti, allt til þess að helmingaskiptafyrirkomulag við stjórnarmyndun Framsóknar og Sjálfstæðisflokks yrðu auðveldari. Með dreifingu á málefnum varð oft til árekstur og erfitt fyrir þá sem hagsmuni höfðu að fá mál afgreidd. Allt varð óþarflega flókið.

Eiginlega væri alveg nóg að hafa ráðherra 3-4, í mesta lagi 5. Við erum það fámenn þjóð að við eigum ekki að spila okkur eins og við séum meiri en við erum. Útþynning valds hefur aldrei átt góðri lukku að stýra. Betra er að hafa fáa ráðamenn sem bera ábyrgð og hana raunverulega en marga sem vísa öllu meira og minna frá sér, sérstaklega þegar þeir þurfa að standa reikningsskap gerða sinna eins og einn fyrrverandi hefur þurft að gera frammi fyrir Landsdómi.

Góðar stundir undir hagsýnni stjórn Jóhönnu og Steingríms!


mbl.is Fækkun ráðuneyta samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg staða

Elliði bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur uppi vangaveltur að flytja út sorp. Annar bæjarstjóri, Árni Sigfússon virðist hafa uppi hugmyndir um að flytja inn sorp frá Bandaríkjunum til að brenna í Sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Eitthvað er þetta einkennilegt.

Lengi hefur verið vandamál að farga sorpi. Sjálfur er eg það gamall að muna eftir öskuhaugunum vestur á Eiðisgranda og í Grafarvogi. Þar var rusli ekið á opið svæði og kveikt í öllu saman, m.a. til að koma í veg fyrir mikla fjölgun á rottum sem þangað sóttu eðlilega. Mátti sjá reyk liðast hátt upp í loftið á góðviðrisdögum upp af sorphaugunum.

Síðan var farið að finna aðrar leiðir til að eyða sorpi m.a. að þróa aðferðir að brenna það. En þá komu eiturefna sérfræðingar til sögunnar og uppgötvuðu þá hræðilegu staðreynd að þegar plastefnum er brennt við ófullnægjandi aðstæður, þá myndast dioxín eiturgufur sem valda auknu tíðni krabbameins sem enginn kærir sig um.

Auðvitað nær það engri átt að flytja sorp með ærum tilkostnaði um langan veg. Sú leið sem höfuðborgarbúar hafa farið er sennilega ein sú skásta: með flokkun sorps og endurvinnslu er kappkostað að draga sem mest úr magni og urða það sem ekki er unnt að nýta.

Sveitarstjórinn á Kirkjubæjarklaustri ber fyrir sig að enn hvíli lán á sorpbrennslu þorpsins og spyr hvað verði um þau lán. Auðvitað þarf að skoða þessi mál en það er engin lausn í því að taka upp sorpbrennslu að nýju vitandi um þá hættu sem er samfara þeirri starfsemi. Þar verður að leggja ofurkapp á flokkun sorps og draga sem mest úr sorpmagni og urða það sem ekki verður ráðstafað á annan hátt.

Góðar stundir!


mbl.is „Allt verðlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt að varast

Ferðaþjónusta er atvinnuvegur. Hún er vandasöm og ekki allra að sinna henni. Frumskilyrði er að þeir sem vilja stunda ferðaþjónustu verði að vera vel inn í væntingum og þörfum ferðafólks. Mörg mistök hafa verið gerð og er það miður.

Eitt sem betur mætti fara er að tryggja ytri aðstæður gististaða betur og sjá fyrir nauðsynlegum þörfum. Oft hefi eg sem leiðsögumaður þurft t.d. að sækja farþega á gististaði þar sem ekki hefur verið séð fyrir aðkomu hópflutningabíla. Dæmi um þetta eru þessi fremur litlu gistihús sem víða eru í miðbænum og gamla austurbænum. Þannig er eins og Hótel Frón á Laugavegi 24 en ekki er heimilt að aka stórri rútu niður Laugaveginn.  Rútuna þarf að stoppa í næstu hliðargötu meðan farþegar eru sóttir. Hótel Klöpp á horni Hverfisgötu og Klapparstíg er litlu betra. Þarna þarf rútan að stoppa, að vísu er það unnt beint fyrir utan dyrnar en það getur valdið öðrum vegfarendum vandræðum og jafnvel skapað hættu. Í gamla Laugavegsapóteki, Laugavegi 16 er einnig eitt af þessum gistihúsum þar sem ekki er heldur unnt að aka og stoppa rútu. Mörg önnur slæm dæmi er áþekk og allstaðar svipuð vandræði. Svo voru einhverjir braskarar að gæla við hugmynd að byggja tiltölulega stórt hótel í húsasundi neðst á Laugavegi. Má þakka guðunum fyrir að komið var í veg fyrir þau slæmu áform.

Allir gististaðir verða að hafa góðar ytri aðstæður. Þar þarf aðkoma fyrir aðföng, farþega og þjónustu að vera ásættanleg. Annars eiga þessi gistihús einungis að vera einföld og fyrir fólk sem helst er með engan farangur, kannski bakpoka.

Mig langar að nota tækifærið og benda á velritaða grein í Fréttablaðinu í dag eftir Auði Sigurjónsdóttur og Helga Pétursson: „Ferðaþjónusta: atvinnugrein eða móttökunefnd“. Þar er vikið einkum að því hversu við Íslendingar erum eftirbátar margra annarra þjóða hvað ferðaþjónustu varðar.

Góðar stundir!


mbl.is Margir vilja eignast gisti- og veitingahús í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju hefur stóriðjan skilað?

Dýrustu og afdrifaríkustu framkvæmdir eru vegna stóriðjunnar. Hvert starf kostar hundruði milljóna og mikil landsspjöll. Þessar framkvæmdir eru yfirleitt óafturkræfar.

Miklar freistingar fylgja stóriðju. Þessi fyrirtæki hafa stjórnmálamenn og jafnvel heilu stjórnmálaflokkana meira og minna í vasanum og veita umbun þegar þeir sýna skilning gagnvart framkvæmdunum.

Það er því engin undur né stórmerki að sömu aðilar séu á móti öllu sem viðkemur umhverfismál og innganga í EBE. Ef Íslendingar væru í EBE væru þessi mál tekin fyrir á þeim kontórum í Bruxell þar sem sækja ber um að opna fyrirtæki sem hafa mengandi starfsemi á sínum snærum. Þessi fyrirtæki verða að kaupa mengunarkvóta. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gefa hann, nema þeir áskilji sér einhver tillög í kosningasjóði eða aðrar leynigreiðslur? Það hefur lengi verið mikil vandræði að koma lögum á koppinn þar sem stjórnmálaflokkar beri að gera opinberlega grein fyrir uppruna og notum þess fjár sem þeir hafa undir höndum. Það er ekki nema um hálfur áratugur að slíkt tókst, loksins en þá hafði Kárahnjúkavirkjun verið byggð að mestu.

Stóriðjan skilur fyrst og fremst eftir sig vinnulaun verkamanna í álbræsðlunum og fyrir þjónustu á ýmsum sviðum.

Landsvirkjun er nánast lömuð eftir mjög óhagkvæmar framkvæmdir vegna Kárahnjúka. Arðsemin af þeim framkvæmdum er ekki nógu góð reksturinn í járnum. Þar koma mun hærri og hagkvæmari tekjur frá almenningsveitum en stóriðjunni!

Miðað við hversu fórnirnar eru miklar á bak við hvert starf í áliðnaðinum þá væri unnt að koma mun fleirum störfum á með mun minna fjármagni á öðrum sviðum. Benda má á t.d. skógrækt í þessu sambandi. Við búum í erfiðu landi en við getum ræktað hér allmikla barrskóga til þess að bæta landið okkar og aðstæður allar.

Við getum t.d. ræktað skóga í margskonar tilgangi. Við getum ræktað nytjaskóga, beitiskóga, útivistarskóga, skjól- og verndarskóga (t.d. vegna kornræktar) og einnig til að bæta samgöngur.

Kannski þarf ekki nema 10-20% af því mikla fé sem fer til nýs raforkuvers til að veita mun fleirum atvinnulausum Íslendingum vinnu með skógræktarstarfi. Við eigum að líta okkur nær, skoða betur hvaða kosti við eigum en ekki hlaupa alltaf eftir pilsfaldinum á einhverjum stóriðjuköllum út um allar jarðir!

Eigum við ekki að byggja upp atvinnulíf okkar á okkar forsendum fremur en hagsmunum stóriðjunnar?

Eg stend með sjóanrmiðum Árna Finnssonar hvað sem tautar og raular! 


mbl.is Þingmenn forðist gífuryrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki seinna vænna

Aldrei hefi eg flogið með þessu Express félagi sem mér skilst að fremur ætti að heita Slowpress eða eitthvað í þá áttina eftir því sem fjölmargar fréttir um óstundvísi og seinkanir benda til.

Sjálfur flýg eg sjaldan og læt Icelandair duga enda hafa þeir staðið sig með prýði. Á þeim bæ hafa áhafnir staðið sig vel. Þó minnist eg þess fyrir rúmum 30 árum tók það mig rúmlega sólarhring að komast frá Lúxembourgh og heim um Frankfurt og Kaupmannahöfn.


mbl.is Stundvísi batnar hjá Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfumglaðir Sjallar

Svo virðist sem Sjallarnir geri sér ekki minnstu grein fyrir ábyrgð af neinu tagi, hvorki formannsnefnan né aðrir forystusauðir þessa gamla flokks braskara og valdamanna.

Ólöf Nordal virðist vera gjörsamlega án ábyrgðar þegar hún slær um sig á kostnað annarra og gerir grín að alkunnum sannindum. Hagvöxturinn er eins og hvert annað mannanna verk sem ekki hefur alltaf leitt okkur neitt fram á við annað en sívaxandi græðgi sem Sjallarnir virðast enn vera of uppteknir af.

Endamörk hagvaxtarins hafa lengi verið kunn bæði meðal hagfræðinga og heimspekinga. En blaðurskjóður eru alltaf tilbúnar að gera lítið úr þegar gróðavonin er annars vegar og unnt að skara eld að sinni köku.

Vonandi sjá sem flestir landsmenn gegnum þetta glamur og bull. Nóg er að lenda einu sinni í banka- og efnahagshruni í boði Sjálfstæðisflokksins!

Góðar stundir en án fulltrúa braskara og bullara!


mbl.is Sjálfstæðismenn byrjaðir í baráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um mál sem má finna lausn

Tvennt er það sem við getum ekki valið fyrirfram: Við getum ekki valið okkur foreldra og við getum ekki valið okkur granna.

Hvernig til tekst er oft undir okur sjálfum komið.

Sitthvað kann að vera sem okkur líkar ekki. Hvernig bregðumst við? Reynum við að fara strax í aðgerðir með því að fara í hart, kæra viðkomandi og óskum eftir að viðkomandi fjarlægi mannvirki? Eða veljum við „diplómatíska“ leið, reynum að hitta vel á grannan og ræða við hann á friðsamlegum nótum um það sem okkur finnst?

Spurning er hvor leiðin komi okkur nær markmiðinu?

Heitir pottar eru að verða stöðugt vinsælli. Sumir eru viðkvæmir en aðrir fyrir að sjá aðra á adams og evuklæðum og það geta verið ástæður fyrir því. Aðrir eru viðkvæmir fyrir hvenær granninn noti heita pottinn. Það nær t.d. ekki nokkurri átt að valda granna óþarfa ónæði t.d. um mðjar nætur.

En hvernig mætti draga úr núningi milli granna? Það mætti setja upp trégirðingu þar sem byrgir sýn og veitir skjól. Jafnvel runni gæti gert svipað gagn. Garður er granna sættir.

Í þessu tilfelli væri ábyggilega unnt með góðum vilja leysa þessi vandræði. Þar verða báðir aðilar að gefa eitthvað eftir og sýna hvor öðrum skilning á gagnkvæmum sjónarmiðum. Smádeila sem unnt væri að leysa á friðsaman hátt gæti jafnvel aukið skilning og virðingu.

Sjálfur bý eg í fremur gamalgrónu og rólegu hverfi í Mosfellsbæ þar sem allt er mjög friðsamlegt. Það er helst sem raskar ró okkar þegar einhver í grenndinni virðist vera fullur og finnur rakettur og lætur freistast að skjóta þeim í loft upp, já á öðrum kvöldum en gamlárdagskvöld og það stundum seint. Nú hefur ekki heyrst í fírverkinu í nokkrar vikur. Vonandi eru allar raketturnar búnar!

Eigum við samt ekki að þykja vænt um granna okkar? Þeir eru okkur dýrmætir meðan allir lifa með sama hugarfari: sýna öðrum virðingu og traust, jafnvel aðstoð þegar á reynir og þarf á samhug að halda.

Vonandi tekst þessum grönnum sem fréttin fjallar um að finna góða lausn á þessum smávanda en án illinda og tortryggni.

Góðar stundir!


mbl.is Setlaug þrætuepli nágranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótanir hrunforystunnar?

Tónninn í tali Bjarna Benediktssonar hljómar eins og hótun. Ríkisstjórnin hefur ekki átt neina sældardaga eftir hrunið sem Sjálfstæðisflokkurinn ber meginábyrgð á. Á þeim bæ var vaðið á súðum og engu skeytt um að sýna minnstu ábyrgðartilfinningu. Þar var allt keyrt í botn til að hámarka gróða þeirra afla sem standa á bak við Sjálfstæðisflokkinn. Þar skipti engu máli þó þrengt væri að hag þeirra sem minna mega sín en allt gert til að draga úr sköttum stóreignamanna og gróðamanna. Meira að segja dregið úr eftirliti til þess að „dáðadrengirnir“ væru ekki truflaðir við að raka saman stórgróða á kostnað okkar hinna.

Bjarni Benediktsson er nátengdur þeim öflum sem óðu á súðum í aðdraganda hrunsins. Hann sjálfur er stóreignamaður og fjölskylda hans hefur miljjarða hagsmuni á því að aftur verði unnt að hefja sama leik og áður. hindrunin er ríkisstjórnin sem í dag hefur mjög nauman meirihluta á þingi, eða aðeins eitt þingsæti!

En ríkisstjórnin stendur styrk þrátt fyrir allt. Hún er málefnalega vel innstillt á að verkefni hennar er að koma okkur frá erfiðleikapyttinum sem Sjálfstæðisflokkurinn átti meginþátt sinn í að draga okkur ofan í. Við viljum velferðarsamfélag allra eins og það tíðkast á Norðurlöndunum sem hefur verið Sjálfstæðisflokknum mikill þyrnir í augum.

Í mínum huga eru þessar hótanir Bjarna forystusauðs Sjálfstæðisflokksins eins og hvert annað hjóm. Tónninn er falskur. Hann einkennist af þeim græðgishug sem auðmenn virðast vera bundnir.

Á Sjálfstæðisflokkurinn að verða „kjölfestan“ íslenskra strjórnmála? Vonandi ekki. Við höfum fengið okkur fullsadda af „kjölfestufjárfestum“ hvort sem þeir fjárfesta í fyrirtækjum með lánsfé eða Sjálfstæðisflokknum sem virðist vera ásamt Framsóknarflokknum meginathvarf spillingaraflanna á Íslandi.

Góðar stundir en án spillingaraflanna!


mbl.is Stjórnarkreppa eða uppbygging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 242918

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband