Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Gúrkutíð?

Hvað kemur okkur það við hver treystir sér ekki eitthvað og að þessu sinni að fylgja gamallri vinkonu sinni síðasta spölinn?

Ef fjölmiðlar leggðu sig meira eftir svona „ekkifréttum“ þá yrði ekki þverfótað fyrir svona löguðu. Okkur kemur þetta akkúrat ekkert við.


mbl.is Gat ekki mætt í útförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað snýst deilan?

Af fréttum er ekki augljóst um hvað verið er að ræða annað en að fjallað er um makrílveiðar.

Makríllinn er flökkustofn fiska sem leitar sífellt norðar á bóginn. Makríllinn er ránfiskur, étur nánast allt sem fyrir er og talið að hann hafi þannig þrengt að fuglategundum sem hér hafa verið þekktar eins og kría og lundi sem lifir að umtalsverðu leyti á sandsíli sem makríllinn bókstaflega hreinsar upp.

Makríllinn veður bókstaflega uppi á ólíklegustu stöðum. Síðastliðið sumar gisti eg í Langholti (Ytri Görðum) á sunnanverðu 4 nætur með þýskum ferðahópum. Í þessum ferðum geng eg gjarnan um ströndina með ferðafólkinu eftir kvöldverðinn. Þetta er ein flottasta ströndin sem til er á Íslandi, með Snæfellsjökul í allri sinni dýrð á næstu grösum, mikið fuglalíf og sjávardýralíf. Má oft sjá seli úti fyrir ströndinni sem oft eru jafnforvitnir og við mannfólkið, hætta sér jafnvel langleiðina upp að ströndinni í öldunum. Í eitt skiptið í sumar sem leið var óvenjumikið fuglalíf þarna við ströndina. Mörg hundruð ef ekki jafnvel um eða yfir þúsund súlur stungu sér hvað eftir annað í makríltorfurnar sem var í sjónum skammt frá ströndinni. Þetta nefnist súlukast eða súlnakast. Mikill hamagangur var einnig í öðrum fuglategundum eins og kríu, fýl og sílamáf. Og við urðum vitni að miklum bægslagangi: þar voru komnir háhyrningar til að taka þátt í veislunni miklu!

Ljóst er að makríll er mikill happafengur bæði fyrir mannfólkið sem dýrin. Makríllinn kemur og fer rétt eins og aðrar fiskitegundir sem synda um sjóinn í misstórum torfum. Þessi afburða matfiskur hefur reynst okkur happadráttur og því finnst okkur sem fiskveiðiþjóð nokkuð hart að nágrannalönd okkar sýni hagsmunum okkar ekki meiri skilning en reyndin virðist vera. Engin þjóð í Evrópu er jafn mikið háð fiskveiðum og við Íslendingar. Við höfum veitt makríl innan okkar fiskveiðilögsögu en höfum ekki sótt hann annað. Það er því nánast óskiljanlegt að ekki skuli ganga betur saman í viðræðum um þessi mál.

Æskilegt er að yfirvöld leggi spilin á borðið: um hvað þessi deila raunverulega snýst. Sem fylgismaður þátttöku okkar í EBE þá finnst mér eins og andstæðingar Evrópusambandsaðildar séu jafnvel að gera þetta makrílmál að einhverju óyfirstíganlegu ágreiningsatriði sem ekki má vera. Í viðræðum við aðrar þjóðir ber okkur að stefna á lausnir ágreiningsefna og skýr markmið. Þar kemur auðvitað hagnýting og hugsanleg friðun að einhverju marki sé um tegundir sem eiga undir brattan að sækja til viðgangs. 

Makríllinn kemur og fer, rétt eins og hver annar flökkustofn. Honum hefur fjölgað mjög mikið eða svo virðist vera. Hann sækir jafnvel þétt að ströndinni eins og á sunnanverðu Snæfellsnesi eins og drepið var á hér að framan.

Einnig væri mjög viturlegt að rannsaka þessa fiskitegund betur, atferli, viðgang, ferðir, æti og sitt hvað fleira.

Góðar stundir


mbl.is Buðu Íslandi hærri hlutdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær hugmynd um náttúrufræðisafn í Öskjuhlíð

Þegar Safnahúsið við Hverfisgötu var opnað 1908, þá voru 4 meginsöfn landsins þar: Landsbókasafn (stofnár talið 1818), Forngripasafn (1863), Náttúrugripasafn (1889) og Þjóðskjalasafn (1882). Talið var að hús þetta sem er eitt af þeim fegurstu í landinu, myndi duga undir starfsemi þessara fjögurra safna í hálfa öld. Það fór svo, að bæði Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið viku úr húsinu um miðja síðustu öld, Forngripasafnið var flutt vestur á Mela þar sem byggt var stórhýsi undir það af miklum myndarskap jafnframt sem nafni safnsins var breytt og nefnt Þjóðminjasafn eins og kunnugt er. Náttúrugripasafnið fór í stórhýsið við Hlemm þar sem það var í sambýli við Náttúrufræðistofnun. Brátt kom að því að þetta safn varð að draga úr umsvifum sínum og virðist hafa verið að mestu leyti varðveitt í kössum.

Í fréttinni er sagt að meginsöfn landsins séu 3 en þau eru í raun 4.

Nú hafa öll hin söfnin fengið sína eigin byggingu: Landsbókasafnið á sömu slóðir og Þjóðminjasafnið í Bókhlöðuna vestan Suðurgötu. Þjóðskjalasafnið fékk gamla mjólkurstöð til ráðstöfunar þar sem húsnæði eru traust enda þurfa skjöl á góðu og öruggu húsnæði að halda sem önnur söfn.

Segja má að sem stendur sé gamla Náttúrugripasafnið eins og munaðarleysingi. Með góðum og gildum rökum má jafnvel fullyrða að það sé safnið sem ráðamenn þjóðarinnar gleymdu.

Fyrir nokkru rituðu tveir kunnir borgarar grein í Fréttablaðið og birtist laugardaginn 4. febrúar síðastliðinn: „Perlu í Perluna“. Höfundarnir eru Hjörleifur Stefánsson, einn af þekktustu arkitektum landsins og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningarhönnuður. Í greininni er varað við að lagfæra slæma skuldastöðu Orkuveitu Reykjavíkur með því að selja þetta einstaka mannvirki og með því að setja fram bókhaldsbrellu.

Í greininni segir: „Hugsið ykkur hve merkilegur staður Perlan er fyrir sýningu um náttúru Íslands. Þarna er risastór sýningarhöll sem hituð er upp með orku úr iðrum jarðar. Þarna er fagurt útsýni til fjallahringsins þar sem sjá má jökla og eldfjöll. Þetta getur ekki verið betra“.

Greinina má finna á slóðinni: http://www.visir.is/perlu-i-perluna/article/2012702049973

Megi þau Hjörleifur og Þórunn hafa bestu þökk fyrir afbragsgóða hugmynd um framtíðarlausn fyrir munaðarleysingjann í kössunum.

Góðar stundir!


mbl.is Náttúrugripasafnið fari í Perluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigumundur bullar

Sigumundur Davíð er greinilega búinn að gleyma hvaða stjórnmálaflokkur lofaði 110% lánum í aðdraganda hrunsins. Hann virðist einnig hafa gelymt því að sami stjórnmálaflokkur strengdi þess dýran eið að Ísland skyldi verða laust við eiturlyf um aldamótin síðustu. Sami flokkur vildi 20% flatan niðurskurð á öll lán hvort sem í hlut áttu skuldarar sem sýndu aðsjálni og skulduðu ekki mikið og geta verið í skilum. Skussarnir og braskaranir hefðu hagnast mest á þessari 20% leið Framsóknarflokksins.

Sami flokkur vildi draga sem mest lappirnar að viðurkenna að setja stjórnmálaflokkum verklagsreglur um fjármál sín þar sem þeir skyldu gera opinberlega grein fyrir uppruna sem notum fjár þess sem þeir hafa undir höndum. Þessi flokkur skilar að jafnaði allra síðast ársreikningum.

Með góðum og gildum rökum má því segja að Framsóknarflokkurinn sé samansafn af bullukollum, með einni undantekningu: Eygló Harðardóttir ber eins af öðrum og ætti hún eiginlega að vera fremur í Samfylkingu fremur en þessum einkennilega stjórnmálaflokki sem svo margir braskarar tengjast.

Sigmundur bullar og bullar. Skiljanlegt er að Steingrími J. hafi þótt nóg komið af svo góðu nú á dögunum þegar hann átti orðaskak við Sigmund: Þegiðu!

Þó svo að Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu er það engin skömm fyrir ríkisstjórnina. Hún hefur verið að taka til eftir frjálshyggjufylliríið og þessi lagasetning sem á reyndi var liður í þeirri hreingerningu.

Góðar stundir!


mbl.is Sigmundur: Hæstiréttur dæmir ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær koma þau niður aftur?

Skoðanakönnun þessi er aðferðalega séð að ákaflega er varhugavert að túlka niðurstöðu hennar þegar aðeins 53% vilja gefa upp afstöðu sína. Hvaða skoðun þessi 47% hafa gæti kollvarpað niðurstöðunum gjörsamlega.

Rétt er að benda á að klofningsframboð hafa yfirleitt aldrei skilað neinu nema auknu sundurlyndi. Meðan móðurflokkurinn er ekki í upplausn þá daga þessi framboð venjulega uppi eins og draugarnir forðum.

Vel er hægt að skilja Lilju og félaga hennar, að þessi skoðanakönnun vaki einhverja bjartsýni. Það getur verið gott að vera í skýjunum en vont er að missa allt jarðsamband.

Mér finnst að hugmyndafræðilegur ágreiningur sé óverulegur, fremur megi segja að Lilja sé ekki samþykk um leiðir. Áherslur hennar hafa einkum verið þær að hún vilji rétta hlut skuldara betur þó fyrirsjáanlegt er að þar hafi verið gert það sem unnt er.

Það getur verið gott að horfa vel yfir vettvanginn en hvernig finna megi bestu leiðina er oft ekki auðvelt. Núverandi ríkisstjórn hefur náð betri árangri en vænst var í fyrstu og má skýra það með ýmsu. En betur má ef duga skal. Þannig verður að styrkja stoðir atvinnulífsins betur þó án stóriðju en fremur með fjölbreytni.

Við skulum sjá hvort þetta sérframboð endist árið.


mbl.is Samstaða er í skýjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er „synd“?

„Syndin er lævís og lipur“. Svo nefnist fræg ævisaga Jóns kadetts í Hernum sem Jónas Árnason færði í letur og var nánast lesin upp til agna.

Hugtakið „synd“ er ekki til í sumum mikilvægum fræðasviðum eins og lögfræði. Þar er talað um „lögbrot“, „ólögmætan verknað“, þjófnað, manndráp, misneytingu, nauðganir, svik, blekkingar og þar fram eftir götunum, brot sem framin eru gegn almennum hegningarlögum, nr.19/1940 með síðari breytingum sem og sérrefsiákvæðum sérlaga eins og áfengislaga (brugg og ólögleg sala, innflutningur o.fl.).

Snorri í Betel verður oft tíðrætt um „syndina“. Hvað er eiginlega þetta fyrirbæri og hvernig tengist það nútímanum? Þetta orð er fyrst og fremst tengt trúmálum enda orðið lengi notað á þeim vettvangi og kannski ofnotað eins og mér finnst þessi umdeildi maður margsinnis gera.

Í Íslenskri orðabók sem Menningarsjóður gaf upphaflega út er orðið „synd“ merking fyrir  „yfirsjón“, „brot á réttri hegðun“. Hvað er þá „rétt hegðun“? Í lögfræðinni er til fyrirbæri sem á latínu nefnist „bonus pater familias“ sem merkir eiginlega „góður heimilisfaðir“ eða eitthvað í þá áttina. Í raun er þetta hugtak yfirleitt eingöngu notað þegar koma upp einhver vafatilfelli í dómsmálum hvað hinn góði heimilisfaðir myndi gera undir þeim kringumstæðum sem lögfræðingar eru ekki sammála um í viðkomandi réttarágreiningi.

Í félagsfræðinni er talað um „norm“ þ.e. staðla eða form sem ætlast er að haft sé til viðmiðunar. Venjulegt fólk sýnir af sér venjulega hegðun, er „normal“ og þeir sem fylgja ekki þessu hegðunarmunstri álitnir vera ónormal. Þessi sjónarmið voru ríkjandi um miðja öldina sem leið og og nokkuð fram eftir. Nú í dag er viðurkennt að fólk fái að hafa það frelsi að hafa sérvisku, klæða sig t.d. frjálslega, haga sér frjálslega, sýna öðrum ást og vinsemd jafnvel utan 4 veggja hins venjulega tabú heimsins.  Heimilið er ju friðheilagt og þar mega einstaklingar gera það sem þeim sýnist án þess að eiga það á hættu að vera kærðir fyrir að ganga fram af einhverjum, jafnvel hneyksla eða misbjóða.

Snorri hefur greinilega sokkið mjög djúpt í gamlan tíma sem einkennist af íhaldsemi og allt að því þröngsýni. Kannski hann hefði betur verið uppi á 17. eða 18. öld fremur en í nútímanum, eða búa í öðrum menningarkima eins og þeim þar sem bókstafstrúarmenn ráða öllu. hann á greinilega erfitt með að sætta sig við raunverulegar staðreyndir umhverfisisins í dag. Nú er fólk mjög misjafnt, hefur sína hentisemi, ræktar sín áhugamál og ver tómstundum sínum eins og það vill, einnig samskiptum við aðra sem engum kemur við meðan ekki eru framin brot í skilningi laganna. Þar skipta gamlar trúarreglur engu máli sem Snorri vill ríghalda í.

Árin kringum 1880 var lögreglustjóri í Reykjavík, Jón Jónsson að nafni. Hann tók hlutverk sitt mjög alvarlega, var oft á ferðinni um bæinn til eftirlits. Sagt er að hann jafnvel hafi lagst á glugga og þegar hann varð þess var að ógift par var að nálgast fáklætt hvort annað ósiðlega í húsakynnum, átti hann til að rjúka upp milli handa og fóta, réðst inn á fólkið og krafðist þess að það stofnaði til hjónabands áður en það væri að efna til „ósiðlegs“ lífernis. Eðlilega var þessu tekið illa eins og nærri má geta sér til um. Jón þessi var í raun að framfylgja þeirri sannfæringu sinni sem hann var kallaður til en þar fór hann fram úr sér og braut rétt á fólki að virða ekki frelsi viðkomandi og friðhelgi heimilis.

Mættu aðrir taka sér þetta til athugunar.

Góðar stundir!


mbl.is Erfitt að draga línuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúrlegur fíflagangur

Ótrúlegt er hversu menn leggjast lágt í vitleysu. Að telja að eitt mesta viðskipta- og herveldi heims hafi áhuga á að byggja upp friðsama ferðaþjónustu kannski 10-15 vikur á ári á einu erfiðasta veðravíti á Íslandi er þvílíkur barnaskapur að nánast tárum taki.

Halda þessir menn virkilega að fyrir Kínverja vaki að greiða niður ferðaþjónustu á forsendum heimamanna við mun erfiðari aðstæður en er t.d. við Mývatn?

Augljóst er að Kínverjar eru sem eitt mesta viðskipta- og herveldi heims meða allt öðru vísi hugmyndir. Þeir hafa verið þekktir fyrir gríðarleg umsvif í margs konar framleiðslu sem grundvallast á frjálsri meðferð hugverka, lágum launum og aðstæðum verkafólks sem þykja ekki við hæfi. Það er svo augljóst m.a. með hliðsjón af vaxandi umsvifum þeirra í Afríku einkum austanverðri, að þeir leggja ofurkapp á að byggja upp viðskiptaveldi sem nær um alla heimsbyggðina. Ísland er liður í þessari útrás þeirra og þeir dulbúa „innrásina“ þannig að sumir Íslendingar liggja gjörsamlega flatir fyrir þessum gylliboðum.

Raunveruleg langtíma markmið kunna m.a. að vera að koma upp þjálfunarbúðum fyrir kínverska herinn en Grímsstaðir er kjörinn vettvangur slíkra æfinga. Kínverjar vita ofurvel að Íslendingar eru upp til hópa mjög opnir fyrir alls konar dellum, eins og utanvegaakstri, vélsleðum, fjórhjólum og öðru slíku. Þeir eiga það sameiginlegt að þeim er viðkvæm náttúra ekki svo mikils virði að allt megi undir yfirskyni einhvers frelsis. Þar fara saman áhugamál margra landa og hugsanlegra markmiða Kínverja. Við skulum ekki gleyma, að sendiráð Kína er á Norðurlöndum langstærsta hér á landi og jafnvel víða. Þeim ætti að vera fyllilega ljóst hversu langt er unnt að teygja sig að afla hagsmuna.

Þegar Kínverjar hafa tryggt sér baklandið má ábyggilega reikna með að þeir vilji tryggja sér greiðan aðgang að hafinu. Þeir gætu óskað eftir því að kaupa upp með manni og mús lítil sjávarþorp eins og Kópasker, Raufarhöfn, Þórshöfn eða Vopnafjörð með hafnaraðstöðu. Og í framhaldi færðu þeir sig upp á skaftið og vildu kaupa Húsavík og jafnvel Akureyri, Seyðisfjörð eða Reyðarfjörð.

Ísland er kjörinn stökkpallur milli Evrópu og austurstrandar N-Ameríku, m.a. vegna styttri siglingarleiða um heimskautalöndin. Gríðarlegir hagsmunir ört stækkandi heimsveldis. Í millitíðinni væru þeir búnir að tryggja sér lönd á milli Grímsstaða og hafna enda eru næg efni hjá Kínverjum til kaupa á landi og landsréttindum, rétt eins og fyrrum væri „plenty of money“ fyrir „Westan“.

Þegar hér eru komnar inn í landið tugir, hundruðir þúsunda, jafnvel milljónir Kínverja, ætli mörgum bóndanum þætti ekki orðið nokkuð þröngt fyrir dyrum?

Er nauðsynlegt að ganga með grasið í skónum alla leið til Kínaveldis í leit að einhverju sem menn hafa ekki hugmynd um?

Í mínum augum er um lágkúrulegan fíflagang að ræða.

Góðar stundir.


mbl.is Fundar áfram með Huang Nubo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með grasið í skónum

Furðulegt er að nokkur heilvita maður leggi fyrir sig langt ferðalag til að grátbiðja einhvern „fjárfesti“ að koma aftur. Hugmyndir þessa Kínverja eru að öllum líkindum allt aðrar en væntingar heimamanna. Forsendur fyrir ferðaþjónustu á Grímsstöðum þar sem vænta má eins versta veðravítis á Íslandi verða aldrei raunhæfar nema yfir hásumarið. Á öðrum tímum má e.t.v. nota aðstöðuna fyrir þjálfun hermanna við erfiðar aðstæður. Þess má geta að Kínverjar eru með mjög stórt og fjölmennt sendiráð í Reykjavík. Sennilega er það stærra og fjölmennara en bandaríska sendiráðið. Mjög líklegt er að Kínverjar vilji fá hafnaraðstöðu þegar þeir hafa tryggt sér baklandið.

Hver greiðir fyrir þetta flandur landa okkar austur í Kínaveldi? Skattborgarar á Norðausturlandi? Ætli svo reynist ekki því varla borga þeir úr eigin vasa.

Sennilega verður varla gengið lengra með grasið í skónum og austur til Kína.

Mjög líklegt er að meira en milljarður Kínverja hlæji að þessari endalausu bjartsýni nokkurra manna á Íslandi. Þessir herramenn haga sér eins og börn. Því miður.


mbl.is Fundar með Huang í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glapræði

Af hverju er enn verið að lána gegn víkjandi lánum? Gera menn sér ekki grein fyrir því að tryggingar og veð verða ansi tæp, kannski einskis virði ef illa fer?

Menn eru ansi brattir, selja eignir til að lána. Kannski búnir að gleyma bankahruninu, gríðarlegu tapi lífeyrissjóða o.s.frv.

Þeim verður ekki fyrirgefið því þeim ber að vita hvað þeir eru að gera!


mbl.is Selja til að lána OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að leita langt yfir skammt

Augljóst er að þessi strákur hefur ekki sýnt af sér mikla fyrirhyggju. Hann hefur ekki einu sinni haft símanúmer hjá íslensku björgunarsveitunum! Fyrr hringir hann í pabba sinn. Átti hann að sækja strákinn? Ef hann hefði verið raunverulega í neyð, þá hefðu björgunarsveitir verið strax komnar í viðbragsstöðu til bjargar. Í staðinn er boðleiðin um Bretland, pabbinn í Suður Englandi, þá breska strandgæslan og þaðan til Íslendinganna.

Því miður er sumum ekki „bjargandi“. Þessi breski strákur hefur verið heppnari en þýsku strákarnir sem urðu úti upp af Svínafellsjökli hérna um árið. Bretinn hefur annað hvort haft gervihnattasíma eða verið svo einstaklega heppinn að hafa verið í sambandi við nærliggjandi símstöðvar.

Einu sinni var talað um að sækja vatnið yfir lækinn og þótti ekki sýna mikið verksvit. En svona er þetta.

Það verður að brýna fyrir þeim sem ætla í ævintýraferðir að undirbúa sig vel og þar með hafa tryggingar í lagi. huga að veðurhorfum og láta þá vita sem umsjón hafa með viðkomandi svæði. Fá sem bestar leiðbeiningar um leiðir sem og tryggja að unnt sé að fá aðstoð strax og ástæða er til.

Og auðvitað ber Landsbjörgu að setja upp gjaldskrá fyrir leit og aðstoð. 


mbl.is Hringdi í pabba sinn eftir hjálp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 242918

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband