Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Svikamylla?

Skil ekkert í þessum tölum. Stautaði mig fram úr bókhaldstölum í nokkrum fyrirtækjum sem eg átti hlut í áður en þeim var rænt. Stjórnendur kepptust hver um annan þveran að lýsa yfir góðum rekstri og töldu að þeir ættu því góð laun skilin.

Svo kom allt í einu í ljós að þessir sömu stjórnendur höfðu hver um annan þveran stofnað til gríðarlegra skuldbindinga og hlutaféð varð að engu.

Síðan lít eg á svona bókhaldstölur eins og hvern annan tilbúning, menn geta þess vegna verið að státa sig af góðum afköstum við að hafa fé af samborgurunum sínum og þar með að hafa fólk að fíflum.

Aldrei hyggst eg kaupa aftur hlutabréf.

Mosi


mbl.is Hagnaðist um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgismaður álguðsins

Jón Gunnarsson hefur lengi verið áhugasamur um álbræðslur.

Mjög óraunhæft er að byggja fleiri slíkar á Íslandi og það er fremur ódýrt lýðskrum að ala á slíku.

Jón Gunnarsson ætti að kynna sér betur viðhorf í BNA um aukinn áhuga Bandaríkjamanna um endurvinnslu áls áður en hann gagnrýnir Steingrím J.

Áláhugamenn eru upp til hópa að slá um sig með gamaldags úrræðum sem duga kannski sem vítamínssprauta til nokkurra ára.

Þá mætti Jón Gunnarsson kynna sér betur hvaða neikvæð áhrif Kárahnjúkavirkjun hafði í för með sér. Þessi umsvif virkuðu sem sprauta á braskara sem settu landið næstum á hausinn.

Jón Gunnarsson ætti að kynna sér betur með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn átti þátt í hruninu, t.d. að vera steinsofandi á vaktinni í Stjórnarráðinu.

Væntanlega hefur Steingrímur tekið skynsamlegri ákvörðun en Sjálfstæðisflokkurinn og fylgisveinn hans Jón Gunnarsson.

Góðar stundir!

Mosi


mbl.is Segir Steingrími „skítsama“ um afleiðingarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskhyggja stóriðjumanna

Einu sinni var talað um að afleitt væri að hafa öll eggin í sömu körfunni.

Landsvirkjun framleiðir rafmagn einkum fyrir stóriðjuna en tekjurnar eru mjög tæpar að vera nægjanlegar til að standa undir afborgunum og vöxtum af lánum.

Í dag horfir til aukinnar endurvinnslu á áli í heiminum enda sér hver heilvita maður heimskuna að flytja álduft til Íslands um hálfan hnöttinn og síðan áfram til Evrópu og jafnvel Ameríku. Bandaríkjamenn eru að vakna við vondan draum og eru að byrja á endurvinnslu. Þegar Bandaríkjamenn hafa hafið endurvinnslu áls líður ekki langt að óhagkvæmum álbræðslum verði lokað. Og álframleiðendur setja upp þumalskrúfuna: annað hvort við fáum rafmagn ódýrar eða við pökkum saman.

Óskhyggja um aukna stóriðju er mjög óraunhæfur draumur örfárra sérvitringa einkum á Suðurnesjum og á Húsavík. Þá dreymir stóra drauminn um álbræðsluna sína sem öllu á að bjarga!

Vonandi verða þessir sveitarstjórnarmenn kolfelldir í næstu sveitarstórnarkosningum svo þeir verði ekki samfélaginu að meira tjóni en orðið er! Kárahnjúkavirkjun ætti að vera víti til varnaðar þó seint sé!

Góðar stundir!

Mosi


mbl.is Segir trúnaðinn fyrir bí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakosningar að vori!

Mér finnst Ólafur Ragnar slá sig til riddara. Í stað þess að sitja á friðarstóli hefur hann undanfarin ár sýnt af sér hegðun popularista: að vilja ganga í augun á vissum viðhorfum. Með þessu er hann búinn að gerast mjög pólitískur, breytt Bessastöðum í mikilvæga skotgröf og hefur þannig valdið afdrifaríku umróti sem hefur verið afdrifaríkara en á hinu pólitíska Alþingi. Í stað þess að sameina þjóðinni hefur Ólafur fremur sundrað og valdið ríkisstjórninni auknum erfiðleikum sem nægir voru fyrir. Hafa jafnvel verið uppi spurningar hvort hann hafi tekið að sér n.k. hlutverk blaðafulltrúa stjórnarandstöðunnar með pólitískum inngripum sínum. 

Sennilega verður þetta síðasta heila ár hans á Bessastöðum.

Forsetinn á að vera sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Við þurfum nýjan forseta með allri þeirri virðingu fyrir politísku skoðunum, menntun og reynslu Ólafs sem merks fræðimanns og prófessors, þingmanns, formanns Alþýðubandalagsins, fjármálaráðherra og síðast 5. forseta lýðveldisins. Bessastaðir eiga ekki að vera pólitískur árásarstaður hvorki á stjórnarráðið, þingið né dómstólana.

Nýjar kosningar í vor!

Mosi


mbl.is „Forsætisráðherrar ætíð velkomnir til Bessastaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni í basli

Bjarni er snöggur til þegar tækifæri gefst að vekja athygli á sér. Sennilega er hann í mjög erfiðri stöðu sem formaður flokks sem ber meginábyrgð á hruninu þegar karlinn í brúnni steinsvaf þó þjóðarskútan stefndi beint í brimgarðinn og steytti loks á skeri.

Auðvitað hafa tekjur ríkissjóðs dregist verulega saman eftir hrunið. Flestir eru sammála um að halda beri uppi þeirri samfélagsþjónustu sem nútímasamfélagið gerir kröfu um: heilbrigðismálin, menntamálin, samgöngur og fleira séu viðeigandi. Verulegur ágreiningur er um leiðir að bæta ástandið. Vinstri menn vilja hækka skatta einkum hátekjumönnum sem íhaldið vill hlífa. Sumir vilja einkavæða sem mest en mjög dapurleg reynsla er af slíku á flestum sviðum. Sporin hræða enda hefur þurft að taka víða til eftir einkavæðingu bankanna sem verður Sjálfstæðisflokknum og Framsókn til ævarandi skammar í sögu fámennrar þjóðar.

Forystumenn þessara beggja flokka hafa aldrei beðið þjóðina afsökunar á hruninu. Þeim finnst sjálfsagt að líta á að þeir bæru enga ábyrgð samanber viðhorf þeirra til ákæru gegn Geir Haarde. Þjóðinni blæðir, ríkiskassinn tómur enda tekjurnar takmarkaðar.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þessari ríkisstjórn takist ætlunarverk sitt. Þar þarf engann Bjarna Benediktsson að meta slíkt. Hann er eins og hver annar fulltrúi þeirra braskara sem með fjárglæfrum komu okkur í þessa erfiðu stöðu.

Góðar stundir

Mosi


mbl.is Staða ríkisfjármála grafalvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan greiðir brot af verði til almenningsveitna

Í upphafi stóriðju á Íslandi var samið um 3 mills eða $ 0.003 fyrir kwst. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum ofbauð svona lágt verð og uppi voru efasemdir á þeim bæ um að það væri nægjanlegt fyrir afborgunum og vöxtum af láni sjóðsins til byggingar Búrfellsvirkjunar. Um þetta var hart barist og reis sú deila einna hæst fyrir um 30 árum í ráðherratíð Hjörleifs Guttormssonar.

En snúum okkur að nútímanum:

Á heimasíðu Landsvirkjunar eru athyglisverðar upplýsingar sem ekki hafa verið birtar áður:

Meðaltekjur af raforkusölu til stóriðjunnar eru tæpir 27 bandaríkjadalir fyrir MW stundina. Við erum að borga 12-15 krónur fyrir kwst þannig að stóriðjan borgar nálægt kr. 3.000 fyrir MWst eða um 3 kr fyrir kwst. en afhending raforkunnar fer fram í aðveitustöð við verksmiðju. Orkuverðið til heimila skiptist nokkurn veginn jafnt milli Landsvirkjunar og dreifiaðila.

Þarna er augljóst að þessi gríðarlegi munur leiðir til þess að tekjur Landsvirkjunar eru enn sem komið er að mestu frá almenningsveitum.

Rök stóriðjumanna eru þau, að rafmagnsnotkunin er nánast stöðug en ekki rokkandi eins og er í heimilisrafmagnsnotkun.

Við gætum selt gróðurhúsabændum umtalsvert magn af raforku á lægra verði en til almenningsveitna. Þar væri væntanlega um nokkuð stöðugt magn þó svo að árstíðasveiflur eru á. Gufuaflsvirkjanir eru heppilegar til að mæta slíkum sveiflum enda skerpist á gufuaflinu á vetrum. Ástæða þess er að kólnun frá yfirborði jarðar dregst verulega saman en eykst á vorin og yfir sumarið.

Hvers vegna ekki sé gerður samningur við gróðurhúsabændur um einhver megavött er óskiljanlegur.

Meðal sumra stjórmálamanna ríkir enn sú skoðun að halda beri leynd yfir orkuverði enda skaði það hagsmuni Landsvirkjunar. Kannski þau viðhorf tengist spillingu sem sennilega hefur viðgengist enda ekkert því til fyrirstöðu að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafi fengið háar fjárhæðir fyrrum í kosningasjóði sína fyrir einstakan skilning á sjónarmiðum erlendra orkukaupenda fyrir ódýrri orku. Hver man ekki eftir áróðursherferð Finns Ingólfssonar fyrrum iðnaðarráðherra Iceland: lowest energy prices.

Góðar stundir

Mosi


mbl.is Landsvirkjun undirritar viljayfirlýsingar um orkusölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsaka þarf aðdragandann

Aðdragandann að þessu Magma glæfrafyrirtæki þarf einnig að rannsaka. Íslenski hlutabréfasjóðurinn síðar Atorka var almenningshlutafélag sem gleypti í sig Björgun og Jarðboranir sem voru í eigu yfir 1000 hluthafa um tíma.

Hannes Smárason á vægast sagt mjög skrautlegan feril að baki sem fjárglæframaður og það sama má segja um Bjarna Ármannsson. Þeir breyttu almenningsfyrirtækjum eins og Kaupþing banka, Flugleiðum og fleiri fyrirtækjum beint og óbeint í fyrirtæki fjárglæfra með lánsfé. Þeir höfðu af venjulegum hluthöfum sparifé og völd í trausti hlutafjár sem þeir áttu minnst sjálfir. Litlu hluthafarnir og lífeyrissjóðir keyptu hlutafé fyrir beinharða peninga, sparnað litlu hluthafanna og lífeyrisgreiðslur vinnandi fólks. Þessir aðilar treystu að þessu mikla fé væri vel sett þar sem byggt var á skynsamlegri orkustefnu sem fyrirtæki á borð við Jarðboranir unnu eftir. Þá koma þessir bankamenn með sína fjárglæfra, REI og Geysir Green Energy sem virðist hafa verið eins og hvert annað fjárglæfrafélag. Stjórnendur þess virðast ekki hafa gert neitt annað en að skuldsetja fyrirtækið enn meir, bókhaldstrixi var beitt til að sýna góðan hag til að réttlæta há laun og stjórnunarkostnað. Og hverjir töpuðu mest? Ætli það hafi ekki verið landsmenn: lífeyrissjóðir og sparifjáreigendur.

Rannsaka þarf aðdragandann að falli þessara fyrirtækja sem Magma gleypir á mjög hagkvæman hátt. Þar eru hagsmunir allra landsmanna enda tengist þessa eignayfirfærsla hag okkar sem lífeyrisþega og sparifjáreigenda sem áttu hluti í þessum forréttingum.

Þess má geta að Guðlaugur Þór þingmaður fékk 1.000.000 frá Atorku vegna prófskjör 2007. Ári síðar féll almenningsfyrirtækið Atorka, stærsti hluthafi Geysir Green.

Mosi


mbl.is „Ég vil fá á hreint hvað átti sér stað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutlaust lögfræðiálit?

Í fréttinni kemur ekki fram hver hefur haft frumkvæði að því að leitað hafi verið álits lögfræðistofunnar. Líklegt er að lögfræðistofan hafi ekki gert það af eigin hvötum heldur hafi sá sem bað um álitið greitt fyrir lögfræðistofuna.

Spurning er hvort slíkt álit geti verið hlutlaust?

Illugi á allt gott skilið enda með skárri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Bæði eru að skoðun margra í röngum flokki, ættu margt meira sameiginlegt með Samfylkingu en þessum grjóthörðu markaðsöflum sem stýrt hafa Sjálfstæðisflokknum síðustu 2 áratugi. Sá flokkur hefur sveigst mjög langt frá miðjunni og er í raun hægri öfgaflokkur sem ekki á sér marga formælendur í dag.

Mosi


mbl.is Illugi aftur á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er tilgangurinn?

Áhugi Kínverja á Íslandi er umhugsunarverður. Hver er tilgangurinn? Ljóst er að Ísland geti orðið lykilríki milli Asíu og Evrópu þegar nýjar siglingarleiðir opnast fram hjá heimskautslöndunum með hlýnandi veðráttu.

Tengist áhugi Kínverja fyrir Íslandi jafnvel fyrir lítils virði afskekktum jörðum á því að þar megi setja niður stóriðju til að framleiða sjóræningjaefni fyrir alþjóðlegan markað með Evrópu að markaðsmarkmiði? Ljóst er að fyrir Kínverjum eru mannréttindi talin lítls virði. Einnig hugverk og alþjóðlegir samningar um vernd höfundarréttar.

Ísland með mjög margvísleg viðskiptatækifæri er framtíð ýmissoknar viðskipta og þess vegna spillingar.

Þá mætti nýta afskekktar jarðir sem öskuhauga fyrir kjarnorkuúrgang. Mikil verslun er með slíkt í henni veröld. Tækifærin eru mörg, því miður.

Mosi


mbl.is Wang Gang á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalveiðisafn á sér framtíð

Hvalveiðar við strendur Íslands má rekja aftur til miðalda. Um 1600 sóttu Baskar hingað mjög og veiddu mjög mikið af hvölum. Fræg eru Spánverjavígin 1615 þegar 3 áhafnir voru drepnar eftir að skip þeirra voru innilokuð vegna hafísa við Vestfirði.

Um hvalveiðar við ísland hefur Trausti Einarsson ritað mjög gott verk sem út kom fyrir rúmum 20 árum.

Fyrir nokkru var sett upp í Ferstikluskálanum vísir að hvalveiðasafni, mjög gott yfirlit um hvalveiðar við Íslandsstrendur.

Kannski að gömlu hvalveiðibátarnir verði best varðveittir sem hluti slíks safns. En yngstu bátanna mætti ef til vill nýta til hvalaskoðunar? Hvalaskoðun nýtir gríðarlegrar athygli og eru tekjur landsmanna sennilega meiri af þeim en hvalveiðum sem fáir vilja styðja.

Mosi


mbl.is Fleytt upp í fjöru í Hvalfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 242912

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband