Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Evrópuferð að baki

Í gærkveldi kom eg ásamt spúsu minni og yngri syni okkar aftur til baka eftir mikla ferð. Fyrir réttum mánuði lögðum við af stað í bílnum okkar, Toyotu Corolla Touring sem við keyptum notaðan í vor. Þessi bíll er 6 ára gamall og hafði verið ekið nær 100.000 km. Við fórum norðurleiðina, komum við í reitnum okkar í Skorradal, vökvðum vel og vandlega ræktina okkar en miklir þurrkar og blíðvirði hafði verið síðustu daga og jafnvel vikur. Í Miðfirði bættist sonur okkar við en hann hafði verið í vinnu tengdri ferðaþjónustunni. Við ókum um Norðurland, gerðum krók á leið okkar um Vopnafjörð og gistum síðustu nóttina í Svartaskógi á Úthéraði. Á Seyðisfirði urðum við vör við lekan bensíntank þá við biðum í röðinni að aka í Norrænu. Við höfðum fyllt tankinn á Vopnafirði en nú voru nú góð ráð dýr. Það var nokkuð einkennilegt hve erfitt reyndist að hafa upp á einhverjum viðgerðamanni til að aðstoða okkur. Það var eins og nánast hvert mannsbarn væri steinsofandi eða fjarri góðu gamni á Seyðisfirði. Loks náðum við í viðgerðarmann og var þá rúmur hálftími til stefnu. Hann var úrræðagóður, skreið undir bílinn og reif burt hlífðarplötu til að sjá hvað olli lekanum. Í ljós kom ryðskemmd rétt ofan við miðju tanksins og þar vall bensínið út. Viðgerðin minnti á hrossalækningu: tyggigúmi var troðið í og yfir gatið og síðan þéttiefni! Þetta dugði og á síðustu stundu náðum við að aka bílnum í skipið. Það munaði í hæsta lagi 5 mínútum hvort við þurftum að skilja bílinn eftir á Seyðisfirði og fara nokkrar ferðir með allt okkar hafurtask um borð í skipið.

Við komum til Hanstholm í Danmörku 18. júlí. Tókum fyrsta daginn rólega, fórum á ströndina og gistum í farfuglaheimilinu Hvide Strand á mið Jólandi við Norðursjóinn. Mjög skemmtileg strönd og höfn þar. Næsti dagur var strembinn en þá ókum við alla leið til Münster í Vestfalen. Var það nálægt 800 km. Þar hittum við góða vini og þar gistum við aftur á mjög góðu farfuglaheimili. Þá var ekið til Wiesbaden og áfram til Rüdesheim og til Karlsruhe í Suður Þýskalandi og eldri sonurinn heimsóttur en hann stundar framhaldsnám við háskólann í þeirri fögru borg. Næsta dag ókum við um Pforzheim, Stuttgart, Augsburg og München til Tegernsee en þar gistum við í viku við það fagra vatn í for Ölpunum. Við höfðum þann háttinn á að fylla ekki bensíntankinn nema til hálfs. Varð það til þess að við urðum að tanka á svona 300 km fresti. Við ákváðum að leita að Toyota þjónustu og í bænum Miesbach um 15 km frá Tegernsee fengum við upplýsingar um stöðu mála. Okkur var ráðlagt að best af öllu væri að skipta um bensíntank, viðgerð á þeim gamla væri fúsk og fyrr eða síðar yrði aftur að standa í viðgerð. Undarlegt er að bensíntankur endist ekki nema 6 ár í gæðabíl sem Toyota er. Svona er nú það. Eitthvað hefur verið höfð fljótaskrift á ryðvörn undirvagnsins að sá sem það hefur gert, hefur ekki ryðvarið efri hluta tanksins. Viðgerðin kostaði með varahltum nær 700 evrur. það er mikið fé fyrir Íslendinga um þessar mundir. Svona fór það.

Dvölin við Tegernsee var mjög ánægjuleg í alla staði. Veðrið var eins gott eins og hægt væri að hugsa sér, kannski að hitinn hafi verið of mikill fyrir okkur mörlandann. Við fórum í gönguferðir, leigðum okkur reiðhjól og hjóluðum hringinn kringum vatnið sem er nokkuð stærra en hálft Skorradalsvatn. Við fórum  í bað bæði syntum og busluðum í vatninu. Þá voru ánægjulegar gönguferðir um fjöllin þarna í kring. Vikan var fljót að líða meðal vina og ættingja spúsunnar.
 
 Þá var komið að því að aka sömu leið til baka með nýjan bensíntank undir bílnum, til Karlsruhe og áfram til Wiesbaden þar sem við gistum hálfa viku. Þá var komið að kveðja ættingja og vini en eldri sonur okkar fór með okkur næsta áfangann sem var Berlín. Mikið var heitt í bílnum sem ekki er útbúinn með loftræstingu. Hitinn fór í +32 gráður, það var kæfandi en við gátum sætt okkur við að hitta aðra Íslendinga á ferð í umferðasultunni sem Þjóðverjar nefna Stau og þykir ekki eftirsóknarvert. Þar vorum við nokkra daga en næst síðasta kvöldið fór sá eldri með lestinni til baka til Karlsruhe.

Eftir Berlín lögðum við leið okkar til Póllands. Illa gekk okkur að finna bensínstöð skammt frá landamærunum og því var það ráð okkar að spyrjast til vegar. Í þessum þorpum kvaðst fólkið fara yfir landamærin þegar það vantaði bensín á bílinn: það væri miklu ódýrara þar og því enginn grundvöllur fyrir rekstri bensínstöðva þarna austast. Við fórum að ráði þessa ágæta fólks og ókum yfir landamærin sem eru núna ekki nema sjón frá því sem var. Fylltum bílinn af ódýru pólsku bensíni og ókum nokkra klukkutíma áleiðis til Swinamunde. Þar fórum við með ferju yfir þetta mikla fljót skammt austan við landamærin og áleiðis eftir vegum til eyjarinnar Usedom og áfram um Greifswald til Stralsund og yfir til stærstu eyjarinnar Rügen. Þar gistum við 3 nætur hjá góðu fólki sem rekur fremur ódýrt gistiheimili. Í tvo daga nutum við leiðsagnar um þessa fögru eyju. Fyrri daginn kynntumst við virkilegri náttúruparadís suðausturs hluta eyjarinnar. Er umhverfið allt undir strangri náttúruvernd en þarna höfðu Rússar byggt upp herstöð og njósnahreiður á dögum kalda stríðsins. Nú er sá tími löngu liðinn en eftir fall múrsins og endalok DDR var ákveðið í samráði við UNESCO að endurheimta fyrri náttúru þessa svæðis. Það var ekki auðvelt, t.d. þurfti að fjarlægja eða öllu heldur að koma fyrir kattarnef um 45.000 rúmmetrum af byggingaleifum sem voru mulin mélinu smærra og hulin jarðvegi. Síðasta daginn fórum við í dagsferð að skoða einhverja furðulegustu byggingu sem um getur frá 20. öld: Prora nefnist milli 4 og 5 km löng 6 hæða bygging sem þó er ekki nema rétt innan við 10 metrar á þverveginn. Þegar útsendari myrkrahöfðingjans, Adolf Hitler hafði setið í kanslaraembætti Þýskalands, var það eitt fyrsta verk hans að brenna þinghúsið í Berlín og í framhaldi af því var verkalýðshreyfingin leyst upp með valdboði. Er þetta ekki draumur margra hægrikarla um þessar mundir? En til að þetta gæti orðið þá varð eitthvað að koma í staðinn: Nasistar komu á fót Deutsche Arbeitsfront og ýms fyrirtæki tengd nasistum tóku að sér að byggja þetta gríðarlega stóra hús. Skuldugur jarðeigandi fékk uppgefna skuld upp á 6 milljónir Ríkismarka gegn afhendingu lands. Tilgangurinn var að þarna gætu allt að 20.000 manns dvalið í senn. Aldrei kom til að þýskt verkafólk fengi notið þeirra gæða nema að litlu leyti. Þegar stríðið hófst var reynt að ljúka byggingunni með nauðgunarvinnu pólskra og annarra stríðsfanga. Eftir stríð á dögum DDR var húsbyggingin nýtt að miklu leyti eftir upphaflegum hugmyndum en þar voru einnig aðsetur rússneskra hermanna.

Þennan sama dag héldum við áfram til hafnarbæjarins Sassnitz en þaðan fer ferja til Trelleborg í Svíþjóð. Skammt norðan við eru krítarklettarnir frægu.

Frá Rügen héldum við sem leið lá vestur með norðurströndinni og gistum síðustu nóttina okkar í Þýskalandi í farfuglaheimili í Flensburg. Næsta dag ókum við til Danmerkur og aftur til Hvide Sande á Jótlandi. Ekki tókst okkur að fá inni á farfuglaheimilinu þar en skammt frá er sjómannaheimili sem býður upp á ágætisgistingu en er um tvöfalt dýrari.

Síðasta daginn okkar í Danmörku tókum vð daginn snemma, vöknuðum hálf sex og fengum nestispakka í stað morgunverðar. Um 150 km eru frá Hvide Sande til Hanstholm og ráðlögðu húsráðendur okkur að vanmeta ekki tímann sem tæki að aka þá leið. Það kom heim og saman, leiðin er víða krókótt og fyrir vikið komum við til Hanstholm í tæka tíð. Að þessu sinni gátum við tekið öllu rólega enda ekkert sem amaði að.

Ferðin með Norrænu var mjög ánægjuleg í alla staði. Verðlag um borð þykir okkur Íslendingum nokkuð hátt. Hlaðborð sem nefnist Sjálftökuborð á færeysku kostar 195 krónur. Það er hátt í 5.000 íslenskar smákrónur! Skítt að ekki fáist íslenskt blávatn um borð en 6 hálfslítra plastflöskur kosta 50 krónur! Færeyskur rollubjór kostar 40-45 krónur kippan í fríhöfninni. Þetta er ljúfur mjöður aðeins sætari en Víkingurinn okkar eða Egils gull, minnir kannski dálítið á Löwenbräu frá München.

Við Hjaltland mátti sjá mjög margar súlur á báðum leiðum, einkum á leiðinni suður. Þetta eru tignarlegir fuglar með mjög langa vængi, nær alhvítir en með svarta vængbrodda. Múkkinn fylgdi skipinu nánast alla leið, þó virtust sumir hellast úr lestinni þá langt var til lands. Gaman er að fylgjast með flugi þessara fugla. Skyldi Richard Wagner hafa fengið hugmyndina að Hollendingnum fljúgandi eftir að hafa virt fyrir sér háttalag þessarar tegundar? Það skyldi þó aldrei vera. Múkkinn er dularfullur fugl sem gengur undir ýmsum nöfnum. Oftast er hann nefndur fýll hjá okkur og bera sjómenn allra landa mikla virðingu fyrir honum. Fýllinn er fyrsti fuglinn sem kemur móti skipinu og er fyrsta merkið að land sé ekki langt undan.

Frá Seyðisfirði ókum við á einum degi heim í Mosfellsbæ. Það var nokkuð stíft en þó ekki verra en lengstu áfangarnir í Þýskalandi. Rúmlega 6.000 km langt ferðalag var að baki! Gamall draumur okkar var að veruleika.

Mosi


« Fyrri síða

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 242836

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband