Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Handvömm á Alþingi?

Þetta er auðvitað e-ð sem ekki má gerast. En þar sem mjög mikið hefur verið að gerast í smafélaginu sem á þingi má alltaf búast við að einhver handvömm verði á og sérstaklega þegar svo stendur á sem nú: upplausn og stjórnarskipti.

Annað mál sem eg skil ekkert í er hvernig í ósköpunum fóru fram mjög róttækar breytingar á hlutafélagalögunum vorið 2008 án þess að nokkrar umræður færu fram. Það mál er miklu alvarlega en umræða um einhverja snobbbíla sem svo virðist að hafi verið margir hverjir mjög illa hirtir, t.d. ekki smurðir reglulega ef fréttin í Morgunblaðinu er lesin.

Sérstaklega er breytingin á 6. gr. hlutafélagalaganna mjög einkennileg þar sem opnuð er leið braskara að yfirtaka félög án þess að nokkur raunveruleg verðmæti séu að baki. Um þetta ritaði eg á slóðinni: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/793678

Fjallar þar um hagsmuni lítilla hluthafa sem og lífeyrissjóða í hlutafélögum.

Umræður og afgreiðsla þingsins á þessum breytingalögum stóð yfir rétt rúmlega stundarfjórðung!

Við verðum að gæta þess, að smámál yfirgnæfi ekki stærri og alvarlegri mál. Auðvitað er af nægu að taka.

Mosi

Mosi


mbl.is Óvirðing við Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofneysla er böl

Ofneysla áfengis hefur lengi verið sannkallað böl. Athyglisvert er að líta 100 ár aftur í tímann var algengt að sterkt áfengi væri veitt í staupatali. Var það m.a. í þeim tilgangi að liðka fyrir viðskiptum.

Síðastliðið haust var eg meðal íslenskra ferðalanga á leið frá Moskvu austur til Kamtsjatka austarlega í Síberíu. Biðum við í óvissu um 7 tíma á flugvelli í Moskvu. Ástæða tafarinnar var sögð slæmt veður! Síðar kom í ljós að ekkert var að veðri,meiraað segja hið besta haustveður á leiðinni og á áfangastað. Það rétta kom í ljós að þá um daginn hafði rússnesk flugvél farist af ókunnum ástæðum og því væri allar flugsamgöngur í Rússlandi meira og minna lamaðar. Við ítarlega rannsókn var orsakanna að leita að flugmennirnir voru báðir ofurölvi!

Á leiðinni til baka settist við hlið mér í flugvélinni ungur Rússi velbirgur af áfengi. Hann drakk hverja bjórdósina á fætur annarri ásamt einhverju sterkara. Svaf hann áfengisdauða lungann af leiðinni sem tók 9 tíma. Þetta brennivínsstand er alls staðar hreint ömurlegt og er Rússum virkilega til vansa. Það er því mjög æskilegt að yfirvöld taki á þessu. En fleiri mættu auðvitað líta í eigin barm því ofneysla áfengis og annarra fíkniefna fer ekki vel með mannslíkamann.

Hóflega drukkið vín gleður geð guma og vífa. Allt er því gott í hófi.

Mosi


mbl.is Áfengi bannað í rússneskum flugvélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við fleiri hagfræðinga?

Þegar eg nam þýsku í menntaskóla fyrir 40 árum þá var meðal ágætis lesefnis smáfrásagnir, sumt með nokkuð köldum húmor.

Ein sagan gekk út á það að gamall maður fór milli margra lækna til að leita bóta á vanheilsu sinni. Ekki tókst neinum lækni að finna það sem amaði að þeim gamla en svo fór að lokum að elli kerling tók hann og hann dó.

Heimilislæknirinn ritaði í reitinn þar sem fyrirsögnin var Dánarorsök: Of margir læknar.

Ekki fór neinum sögum um hvort læknirinn hafi fengið tiltal vegna þessa.

Það grafalvarlega ástand sem nú einkennir íslenskt samfélag er ekki vegna þess að of fáir hagfræðingar séu á þingi. Við getum alveg eins fengið nokkra veðurfræðinga kjörna sem þingmenn, þeir breyta engu hvort betri veðurhorfur verði hér á landi næstu árin.

Hagfræðingar eru sérfræðingar í „hinum döpru vísindum“. Þeir njóta sín best þegar þeir gegna stöðum sérfræðinga í samfélaginu þar sem þeir sinna vísindalegu köllun sinni á sem hlutlausastan hátt. Við þurfum ekki pólitíska hagfræðinga fremur en pólitíska veðurfræðinga.

Kannski að kollsteypan í efnahagslífi þjóðarinnar sé vegna þess að of margir hagfræðingar vildu stýra þjóðarskútunni og tókst ekki betur en raunin er.

Mosi


mbl.is Tryggvi Þór Herbertsson vill á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegur viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins

Nánast hvern einasta dag kemur e-ð nýtt fram um skelfilegan viðskilnað Sjálfstæðisflokksins. Hvar endar þetta?

Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn n.k. „flaggskip“ íslensku stjórnmálaflórunnar. Nú virðist vera þvílíkt illgresi sem vaxið hefur í flokki þessum að nú þarf heldur betur að taka til hendinni, uppræta illgresið og rækta garðinn að nýju.

Því miður getur Mosi ekki vorkennt forystusauðum Sjálfstæðisflokksins hvernig komið er. Þið máttuð vita en breyttuð ekki eins og sjá mátti fyrir. Þið hafið verið á stöðugu lensi en eruð núna strandaðir á blindskeri, með brotin möstur, segl og reiði farin veg allrar veraldar.

Á þingi steytið þið hnefann, skiljið eftir tímasprengjur en iðrist einskis.

Betra hefði verið að allir flokkar hefðu tekið höndum saman og kappkostað að bjarga því sem bjargað verður. Nú er Snorrabúð stekkur.

Það tekur langan tíma að byggja aftur upp traust sem glatast hefur.

Mosi


mbl.is Gripið í tómt hjá Byggðastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftleiðir: skrautleg saga að baki

Já þetta var merkilegur tími í samgöngu- og atvinnusögu Íslendinga.

Nauðsynlegt er í rekstri fyrirtækja að beina fjárfestingum í sem hagkvæmastu átt. Douglas Dakota flugvélarnar voru lengi vel nátengdar sögu félagsins, fyrst DC3 „Þristarnir“, þá komu Skymaster DC4 og síðar Cloudmaster DC6 sem voru í flugflota félagsins á árunum kringum 1960. Þá kom millikafli þegar keyptar voru 1964 flutningavélar frá Kanada, CL-44 „Monsarnir“. Þeim var breytt til farþegaflugs og þar sem þær voru knúðar hreyflum frá Rolls Royce þá fengu þessar flugvélar þetta heiti. Tómar vógu þær jafnmikið og DC6 fullfermdar og þurftu því lengri flugbrautir. Nokkrir erfiðleikar voru samfara að fljúga þeim og þurfti t.d. að koma fyrir sérstakri ballest, einu tonni að þyngd, framarlega í flugvélunum. Alls voru framleiddar einungis 39 flugvélar af þessari gerð og voru þær einkum notaðar í þágu kanadíska hersins. Loftleiðir keyptu alls 5 flugvélar af þessari gerð.

Monsarnir áttu sinn þátt í að gera Loftleiði að því stórveldi sem það var uns Loftleiðir voru sameinaðir Flugfélagi Íslands 1973 sem Flugleiðir.

Árin 1967 og 68 var umtalsvert tap á rekstri Loftleiða og 1. maí 1968 er rekstri gömlu DC6 flugvélunum hætt. Þær voru lítt seljanlegar en oft verður dauði annars brauð og kemur nú að kostulegum kafla í sögu Loftleiða:

Um mitt sumar 1968 leituðu hjálparstofnanir kirkjunnar á Norðurlöndum eftir flugvélum til að flytja nauðþurftir til sveltandi íbúa í Biafra í austur Nígeríu. Var stofnað sérstakt fyrirtæki, Flughjálp sem var í eigu kirkjunnar. Var byskup Íslands, herra Sigurbjörn Einarsson formaður fyrirtækisins. Nú var ekki unnt að veita þessu fyrirtæki óskert flugrekstrarleyfi þar eð ekki var næg reynsla á rekstri flugvéla hjá kirkjunni. Þessum vandræðum var bjargað snarlega með því að Loftleiðir sá að öllu leyti um flugreksturinn en herra Sigurbjörn gerður að deildarstjóra í Loftleiðum! Mun það vera einsdæmi að klerkur hvað þá byskup hafi verið dreginn inn í rekstur fyrirtækis um tíma!

Biafra flugið var sérkennilegt hliðarspor. Einn af reyndustu flugmönnum Íslendinga, Þorsteinn Jónsson sem lærði að stýra orustuflugvélum í breska flughernum á stríðsárunum, hafði veg og vanda af þessu hjálparstarfi. Alls voru flognar um 400 ferðir og flaug Þorsteinn sjálfur 6 nætur af 7. Síðasta ferðin var mjög söguleg en þá lenti Þorsteinn í kúlnahríð frá stjórnarhefnum í Nígeríu.

Haustið 1969 var fyrsta Monsanum breytt aftur til vöruflutninga. Nú kom til sögunnar Cargolux, dótturfyrirtæki Loftleiða sem talið er hafa tekið til starfa 1970. Varð brátt mjög blómleg starfsemi kringum það fyrirtæki og til varð íslendinganýlenda í Lúxembourgh. Um þetta leyti var fyrsta þotan af gerðinni DC8 útveguð til rekstursins. Þotuöldin hófst nokkrum árum á eftir Flugfélagi Íslands sem hafði keypt Boeing þotu 1967. Air Bahama hóf flug milli Nassau og Lúxembourghar 1968. Það flugfélag stóð með Loftleiðum utan IATA sem var lykilatriðið að samstarf þessara flugfélaga varð til að stórlækka fargjöld milli Ameríku og Evrópu. „Hippaflugfélagið“ var komið til sögunnar! 

Þessi stutti útdráttur er byggður m.a. á „Alfreðs sögu og Loftleiða“ eftir Jakob. F. Ásgeirsson, Reykjavík 1984.

Mosi

 

 


mbl.is Sigurður ruddi lággjaldaflugfélögum braut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegustu hliðar hrunsins

Óhætt má segja að dapurlegustu hliðar fjármálahrunsins mikla komi fram í vaxandi glæpastarfsemi minni háttar „athafnamanna“. Þegar starfsemi bankana og fyrirtækjanna í landinu lamast, tekur undirheimurinn við. Gríðarlega umsvifamikið neðanjarðarhagkerfi er að öllum líkindum að hasla sér völl í íslensku samfélagi. Þetta er hræðilegt og kallar á aukna aðgæslu einkum þeim sem hætt er við að falla fyrir fíkniefnum og verða háðir þeim.

Við þurfum að veita lögreglunni liðsinni. Með árverkni og hafa athygli okkar alla á þvi sem miður fer ætti að vera unnt að uppræta sem mest af þessari starfsemi. Mikilvægt er að efla félagsleg úrræði fyrir þá einstaklinga sem í hættu eru.

Því miður á illa fengið fé tiltölulega auðvelda leið í ólögmætan hagnað sem grundvallaður er af ólöglegri starfsemi.

Við verðum að leggja hönd á plóginn og veita lögreglunni alla þá aðstoð til að uppræta megi þetta illgresi.

Mosi


mbl.is Fíkniefnahagnaði ráðstafað hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The king can´t do any wrong

Kostulegt er að bankastjórar Seðlabanka steyti hnefa gegn nauðsynlegum breytingum þegar hagfræðingar víða um heim sem tjáð hafa sig um málið, undrast að þessir menn hafi ekki játað á sig mistök og vikið sæti.

Geta bankastjórar fyrrt sig ábyrgð?

Þetta er mjög dapurlegt og er ekki til þess fallið að auðvelda lausn á erfiðleikunum. Seðlabankinn gerði þau afdrifaríku mistök eftir að Davíð kom í bankann að hækka stýrivexti upp úr öllu valdi. Með þeirri ákvörðun voru settar tímasprengur af stað: Annars vegar með vaxandi blöðru í formi svonefndra „Jöklabréfa“ sem erlendir fjárfestar sóttu í. Hins vegar gáfu þeir bankastjórum Gltnis en þó einkum Kaupþings og Landsbanka tækifæri að opna innlánsreikninga erlendis sem byggðust á háum vöxtum.

Svo kom að því að vandinn varð það mikill að allt sprakk í loft upp. Frjálshyggjan sýndi græðgiskrumluna og hefur með afdrifaríkum afleiðingum skilið íslensku þjóðina eftir í skuldasúpunni.

Því miður er einn „aðalblöðrumaðurinn“ sem ábyrgur er fyrir þessu öll, sá sem nú vill ekki sætta sig við nein mistök. Hann situr sem fastast og hugsar sjálfsagt eins og ensku geðveiku kóngarnir forðum en í byrjun 18. aldar samþykkti enska þingið eftirfarandi lög sem var ein setning:

„The king can´t do any wrong“.


mbl.is Gagnrýna Seðlabankafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýbúar

Allt gott fólk á að vera velkomið til landsins okkar og vilja lifa hér í friði og sátt við land og þjóð. En eru allir komnir hingað með það að markmiði?

Ljóst er að sá sem vill flytja til annars lands verði helst af öllu að aðlaga sig best að aðstæðum í því landi, læra tungumálið og sætta sig við ytri aðstæður sem veður og þess hattar. Ísland er ekki auðvelt til búsetu og atvinnuhorfur eru nú ekki sem bestar.

Við Íslendingar erum mikil menningarþjóð, tölum eitt elsta varðveitta lifandi tungmál í Evrópu og eigum gríðarlega merkilegan sjóð sem tengist bókmenntum okkar. Við búum í fögru landi sem því miður hefur ekki verið farið nógu vel með gegnum aldirnar. Við erum að mestu leyti kristnir og teljum að kostir þeirra trúarbragða séu um margt til fyrirmyndar. Þannig erum við með umburðarlyndari þjóðum heims sem látum ýmislegt yfir okkur ganga áður en okkur ofbýður.

 

Ástæða að fara varlega?

Alla þessa kosti er ástæða til að varðveita eftir því sem tök eru á. En víða kann vá að vera fyrir dyrum. Ekki dugar þannig að krefjast þess að umhverfið aðlagi sig að öllum þeim breytingum sem við væntum. Þannig geta framandi siðir og jafnvel atvinna valdið okkur hugarangri. Við viljum klæða okkur eftir aðstæðum og þeim venjum sem verið hafa. Þannig finnst okkur blæjur og þess háttar klæðnaður kvenna frá bókstafstrúarfólki Íslam vera allt að því afkáralegur. Vonandi er að aldrei festist hér einhver þröngsýn bókstafstrú sem kann að veikja íslenskt samfélag.

Viðhorf til ýmissa neysluvara kann að vera í ósamræmi við lög og góða reglu. Í mörgum löndum eru ýms neysluefni talin vera jafnsjálfsögð eins og það sem við nefnum einfaldlega eiturlyf. Meðan slíkt er óheimilt þá verður ætíð innflutningur, sala, dreifing og neysla slíkra efna bönnuð og gildir engu hver uppruninn er.

Í fréttum nú á dögunum hefur verið sagt frá uppákomu sem tengist vændisstarfsemi eins nýbúa. Þessi starfsemi kemur öðru hverju upp og ýmsar ævintýralegar sögur sagðar af slíku. Oft hefur komið til kasta lögreglunnar í slíkum málefnum og orðið eftirmál af. En þessi atvinnustarfsemi þykir víða jafnsjálfsögð og betl sem hefur verið harðbannað hér lengi.

En vandræði teljast vonandi til undantekninga. Meðal okkar sem erum frumbyggjar er einnig nokkur hópur sem er sífellt til vandræða og má benda á hvítflibbamennina sem nú hafa komið okkur á kaldan klaka. Ekki er þar neinn nýbúi þar á meðal.

Það er því sjálfsagt að fara varlega og vanda valið, hvort sem er við að kjósa til Alþingis eða sveitastjórna, eða taka afstöðu hvort veita eigi hundruðum manna ríkisborgararétt. Dómsmálaráðuneytinu og Alþingi á að vera treystandi að sinna sem best þessum málum að hérlendis verði sem fæstir til vandræða og að gæta þess að góð og réttlát landslög verði virt í hvívetna.

Mosi


mbl.is 914 fengu íslenskt ríkisfang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknrænn gerningur

Hýðingar fóru síðast fram á Austurvelli fyrir nær 180 árum. Í mars 1829 voru 4 þjófar úr Húnavatnssýslu hýddir af Guðmundi Fjósarauð, sem var síðasti böðull Reykjavíkur. Hann hafði viðurnefnið fjósarauður og varð síðar sótari og kamarmokari.

Mosi


mbl.is Láta hýða sig í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjar eru hvatirnar að ákvörðun Jóns Baldvins?

Einkennileg er þessi dæmalausa yfirlýsing Jóns Baldvins um að annað hvort bjóði Jóhanna Sigurðardóttir sig tilformanns Samfylkingar eða hann bjóði sig sjálfur fram án þess að fyrir liggi yfirlýsing frá núverandi formanni, Ingibjörgu Sólrúnu um hvort hún hyggist draga sig í hlé.

Ekki má gleyma því að Jón Baldvin sleit síðustu vinstri stjórn og tátti meginþáttinn í að koma þessum voðalega manni, Davíð Oddssyni til valda með skelfilegum afleiðingum. Spurning er hverjar hvatirnar eru aðJón Baldvin skellir þessari sprengju inn á fund. Hyggst hann jafnvel koma Davíð til bjargar? Það skyldi þó aldrei vera?

Mosi


mbl.is Ingibjörg Sólrún ekki að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 242914

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband