Júnímánuður

Nú er liðinn nær mánuður frá síðasta bloggi Mosa. Auðvittað á það sér skýringar.

Síðastliðinn vetur var Mosi án atvinnu. Það var dáldið einkennilegt tímabil að fá hvergi vinnu eftir að hafa verið starfandi í áratugi við mismunandi störf og síðast á bókasafni í áraraðir. Sótt var um öll möguleg störf síðastliðinn sem tæplega 60 ára maður telur sig geta valdið og geta gert gagn en án árangurs á sviði staðgóðrar menntunar.

En Mosi er fjölhæfur og hefur í nær 20 ár verið starfandi sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna um Ísland. Í júní breyttist heldur en ekki hagur Mosa og hann var eina 27 daga við leiðsögn þýskumælandi ferðamanna þar af tvær lengri ferðir um landið.

Alltaf er gaman að gera gagn og greiða götu þessara ferðamanna sem koma hingað og eru forvitnir um að ferðast og fræðast um landið okkar. Nær undantekningarlaust eru allir ferðamenn mjög ánægðir og uppfullir af fróðleik og eftirminnilegum minningum um góða dvöl í þessu norræna landi. Það var aðeins einn maður sem ekki var sáttur. Á næst síðasta degi vildi hann ólmur rjúka til og fara að skoða gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli og taldi það ekki meira mál en að skoða hraunið við Leirhnjúk hjá Kröflu fyrir norðan! Svona getur misskilningur verið mikill þegar hugurinn ber skynsemina ofurliði. Auðvitað hefði það verið óðs manns æði að ætla sér að vaða upp á Eyjafjallajökul um torleiði í meira en 1660 metra hæð og eiga á hættu að hrapa niður 300 metra snarbrattann jökulinn niður í gíginn með sjóðandi heitu vatni! Kannski að blessaður maðurinn hafi verið haldinn einhverri spennufíkn sem því miður allt of margir fá stundum í sig.

Annars varð mér stundum hugsað á ferðum mínum hversu við Íslendingar stöndum okkur illa að sumu leyti hvað ferðamenn varðar. Á einu hóteli einu úti á landi voru gerð mjög slæm mistök að mismuna hópnum með gistingu. Flestir fengu mjög góða gistingu  eðan aðrir fengu mun lakari þó svo að ekki væri tilefni til þess.

Þá eru vegirnir okkar kapítuli út af fyrir sig. Að láta gestina okkar hossast klukkutímum saman á slæmum vegum jaðrar við mannréttindabrot. Hvers vegna var gerður varanlegur og vandaður 60 km langur hálendisvegur upp úr Fljótsdal vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem kemur nú mjög fáum að gagni? Á sama tíma tekur hátt í 3 klukkutíma að aka frá Kelduhverfi upp í Hljóðakletta og til baka aftur og síðan austur með Jökulsá um Hafragilsfoss og Dettifoss um Hólsselskíl og Grímsstaði á þjóðveginn áfram austur á land. Þessi leið er að mörgu leyti hliðstæð að lengd miðað við þennan umdeilda veg sem lagður var í þágu álguðsins sem virðist vera æðstur allra guða að mati sumra stjórnmálamanna. Forgangsröð sumra stjórnmálamanna í vegamálum er hreint furðuleg að ekki sé dýpra tekið í árina.

Og nú ætlar Möllerinn að fara í Vaðlaheiðargöng til að þóknast kærum kjósendum sínum við Eyjafjörð. Af hverju má ekki leggja meiri áherslu á ferðamannavegi í þágu ferðaþjónustunnar? Er það kannski vegna þess að erlendir ferðamenn hafa ekki atkvæðisrétt? En það skal Möllerinn betur vita að það eru margir sem tengjast ferðaþjónustu og hafa atkvæðisrétt þó ekki sé í kjördæmi ráðherrans! Vaðlaheiðargöng eru ekki svo brýn að taka beri þau fram fyrir aðrar vegabætur sem beðið hafa í áratugi!

Mosi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

velkomin á bloggið aftur Mosi,og gott að láta þessa menn heyra það um vegina/þarna erum við þó sammála sem oftar/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.7.2010 kl. 00:29

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gaman að sjá að þú er kominn aftur Mosi, þó vel gæti ég unnt þér að halda áfram að sýna ferðalöngum, þýskum eða öðruvísi, okkar fallega land.

Sjálfur var ég einu sinni atvinnulaus í þrjár vikur og þótti það aldeilis alveg nógu langur tími. Ég þekki hins vegar mun betur hvað það er að vera hafnað. Upp úr fimmtugu reyndi ég að skipta um starfsvettvang en fékk yfirleitt þau svör við því sem ég sótti um að ég væri orðinn of gamall. Eða kona með mun minni reynslu og/eða menntun en ég tekin fram yfir vegna kynjakvóta (í orði kveðnu. Í raun var það aldurinn sem réði). Á einum stað var mér vísað frá á þeim grunni að ég væri „yfirkvalífíseraður“ eins og það var orðað. Þvílíkt bull! Burtséð frá virðulegum aldri mínum, rétt sextugur á þeim tíma, held ég að konan sem réði hafi bara óttast að ég myndi ásælast stólinn hennar. -- En um Demantshringinn: sendi þér hér brot úr pistli sem vinur minn Björn Sigurðsson ferðafrömuðu á Húsavík skrifaði i vetur og hefur nokkuð víða birst. Þetta hefur verið áhugamál Björns í áratugi: Enn er beðið eftir langþráðum Demantshring Húsavík, Tjörnes, Kelduhverfi, Ásbyrgi, Vesturdal, Hljóðakletta, Hólmatungur, Dettifoss, Mývatn og til Húsavíkur sem mun ekki bara fjölga ferðafólki heldur dreifa fólki betur og lengja ferðamannatímann til muna

Sigurður Hreiðar, 5.7.2010 kl. 10:27

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Bestu þakkir Haraldur og Sigurður.

Hugmynd Björns á Húsavík verður vonandi að veruleika áður en langt um líður. Þessi vegalengd sem nú eru malarvegir og þvottabretti ætti að vera í mesta lagi klukkustundar akstur þannig að ferðamenn hefðu meiri tíma  að njóta í þessum náttúruperlum.

Síðasta vetur las eg mikið og sankaði að mér allmiklum upplýsingum um söguleg efni og tengjast væntanlegum bókaskrifum: hef á prjónunum að skrifa sögulega bók um spillinguna á Íslandi, hvorki meira né minn! Kunningjar mínir segja mig vera kominn á bólakaf í spillinguna þó svo án þess að hafa tekið þátt í þessu öðru vísi en þolandi prettanna og svikanna sem við sitjum uppi með.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 5.7.2010 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 242899

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband